Magnús A. Sigurðsson, maður Ragnheiðar, ásamt Sigurði Mar Magnússyni 19 ára syni þeirra. Myndin er tekin í Hólmgarði, lystigarðinum í Stykkishólmi.

Jólakveðja úr Stykkishólmi

Stærsta jólagjöfin

Jólin eru hátíð ljóssins, og á tímum þegar stríð og óvissa ríkir víða um heim er gott að staldra við, stilla hugann og minna sig á það sem skiptir máli.

Sem lítil stúlka upplifði ég mikla tilhlökkun fyrir jólunum. Í Hafnarfirði fengum við systur að opna einn pakka strax eftir matinn - og oft féll valið á pakkann frá Palla og Björk, sem gáfu alltaf skemmtilegar, oft heimatilbúnar gjafir.

Jólin í Flatey voru svo eins og ævintýri; ekkert rafmagn, suð í olíueldavélinni og lítið gamalt jólatré á stofuborðinu. Lína og Hafsteinn í Læknishúsi komu niður í þorp til að óska gleðilegra jóla, og ilmurinn af ofnsteiktri önd fyllti húsið. Í Læknishúsi var haldið í gamla eyjahefð - grautur í hádeginu og um kvöldið tertur, smákökur og heitt súkkulaði með rjóma.

Í Danmörku bauð fjölskylduvinkona okkur í danskt aðfangadagskvöld. Þar sá ég fyrst lifandi kerti á jólatré, sem skapaði töfrandi birtu. Fjölskyldurnar skiptust á jólapökkum milli landa og eitt árið settu foreldrar mínir vel pakkaðan lunda efst í kassann. Við opnuðum alltaf kassann frá Danmörku strax - en Irme, danska vinkonan, beið greinilega fram á aðfangadagskvöld. Því miður hafði lundinn þá skemmst... og þegar kassinn var opnaður gaus upp slík ýldulykt að börnin öskruðu - en Irme hélt fast í að þetta væri íslenskt góðgæti! Hún hafði jú smakkað hákarl og skötu! Þessi jól gleymdust seint.

Í Noregi upplifðum við Magnús yndisleg jól, mjög lík þeim íslensku að undanskildu pinnekjøttinu - það eru lambarif sem eru lögð í saltpækil, þurrkuð í 6-8 vikur, og síðan gufusoðin ofan á birkikubbum og smá vatni. Við tókum að okkur eldamennskuna meðan fjölskyldan fór í kirkju.  Bróðir Magnúsar ráðlagði að sjóða kartöflurnar og setja pottinn undir sæng í hjónarúminu til að halda þeim heitum. Síðar, í gríni, sagði Magnús í símtali við bróður sinn að hann hefði; „dreift kartöflunum undir sængurnar samviskusamlega um allt rúmið“ - sem fékk bróður hans til að missa jólaskapið eitt augnablik, þar til eiginkonan sprakk úr hlátri. Kvöldið var hátíðlegt, með heitum og fínum kartöflum.

Laufabrauðsgerð var fastur liður á mínu æskuheimili, þar sem tvær vinafjölskyldur komu saman og nutu samverunnar. Síðan við Magnús fluttum í Stykkishólm höfum við verið heppin með að fjölskyldan kemur vestur og heldur jól með okkur. Ómissandi hluti jólanna er skötuveislan á Þorláksmessu á Sundabakka, þar sem fjölskylda og vinir koma saman - hvort sem þeir borða skötu eða halda sig í „aumingjahorninu“ með pizzu.

Við höfum líka farið í skötu til vina okkar í Lágholtinu ásamt nunnunum úr Stykkishólmi sem sungu og skemmtu sér konunglega. Slíkar gleðistundir gefa lífinu lit.

Jólin geta verið erfiður tími fyrir marga, og því skiptir máli að sýna umburðarlyndi og hlýju. Við erum öll mannleg, gerum mistök og lærum vonandi af þeim. Æfum okkur í að tala fólk upp, hugsa hlýlega til þeirra sem eiga í erfiðleikum, líður illa, eru veikir, syrgja eða eru að kveðja. Lífið er bæði súrt og sætt - Yin og Yang.

Njótum samveru, með fjölskyldu og vinum eða í eigin kyrrð, eftir því sem hentar best. Sýnum náunganum kærleika með brosi, vingjarnlegu orði eða hjálpsemi. Sælla er að gefa en þiggja - og það gildir í báðar áttir. Að þiggja þá gjöf að frænka mín sé laus við krabbamein er stærsta jólagjöfin í ár.

Stykkishólmur er hátíðlega skreyttur og jólaljósin lýsa leiðina til jóla og í Hólminn.

Gleðilega hátíð!

Ragnheiður Valdimarsdóttir, Stykkishólmi

Ragnheiður Valdimarsdóttir.