
Jólakveðja úr Snæfellsbæ
Í aðdraganda aðventu
Þegar þetta er skrifað er úti hávaðarok að suðaustan, skýjað og lítilsháttar rigning. Það er sjö stiga hiti úti og lítið, veðurfarslega séð, sem minnir á að fyrsta helgi í aðventu sé eftir rétt rúma viku. Rökkrið minnir samt á að jólahátíðin nálgast. Jólaljósin í húsum bæjarins minna líka á aðventuna, þeim fjölgar með degi hverjum í gluggum og þakskeggjum og lýsa upp þennan annars frekar drungalega tíma árs.
Ég ólst upp í Borgarfirðinum, úti í sveit, þar sem skammdegið var afskaplega dimmt, engin götuljós og á þeim tíma var ekki þetta gríðarlega magn af jólaljósum sem í dag lýsa upp tilveruna í aðdraganda hátíðanna. Á þeim tíma sem ég var að alast upp var aðdragandi jólanna styttri, þ.e.a.s. undirbúningur hófst ekki fyrr en fyrstu helgina í aðventu. Að vísu geri ég ráð fyrir að mamma hafi verið farin að undirbúa hátíðina töluvert fyrr, allavega í huganum. Farin að skipuleggja jólagjafir, bakstur, mat, innkaup, jólaföt og allt það sem fylgir jólahátíðinni á stóru heimili. Hins vegar hófst undirbúningurinn í huga okkar systkinanna ekki fyrr en aðventukransinn var gerður, jóladagatölin komin á sinn stað í herbergjunum okkar og Ríkisútvarpið hóf að spila jólalögin, sem sagt í kringum 1. desember. Aðventan var full af spennu og skemmtilegheitum; föndri, bakstri, þrifum, skreytingum, konfektgerð og svo biðum við full tilhlökkunar eftir jólasveinunum sem settu mandarínu eða súkkulaðibita í skóinn hjá okkur. Nema hjá bróður mínum, sem var stundum svolítið óþekkur og átti það til að fá kartöflu í skóinn af og til.
Þegar ég eignaðist mín börn var ég ákveðin í að skapa okkar eigin hefðir og minningar. Ég hef til dæmis alltaf haft samverudagatal á aðventunni og það hefur verið mestur spenningurinn hjá krökkunum að opna það og sjá hvað við ætluðum að gera saman þann daginn. Það hefur aldrei þurft að vera flókið, en þýddi samt að við áttum alltaf góðar og notalegar stundir saman á aðventunni, stundir sem við gátum öll hlakkað til allan daginn.
Ég hef líka lagt áherslu á að vera ekki með stress á aðventunni, og þar hjálpar að undirbúningstími jólanna hefur færst framar. Jólaskraut er komið í verslanir í október og jólalög farin að heyrast í útvarpinu frá því í byrjun nóvember. Þrátt fyrir það að ýmsum finnist þetta kannski of snemmt, þá hefur mér þótt ágætt að dreifa jólaundirbúningnum á lengri tíma. Sum af börnunum mínum eru mikil jólabörn og hefði fundist allt í lagi að byrja á jólalögunum í september, en ég hef sett viðmiðið við 1. nóvember og þau hafa því beðið spennt eftir því að setja fyrstu jólalögin á þann daginn. Við höfum líka byrjað á jólabakstrinum í byrjun nóvember, og haft fyrir sið að jólakökurnar eru bara borðaðar jafnóðum. Í minni minningu voru jólasmákökurnar bakaðar í desember og á þeim var setið eins og ormur á gulli þar til sest var inn í stofu til að taka upp pakkana á aðfangadagskvöld, en þá voru allir orðnir alltof saddir og höfðu kannski litla ánægju af að bæta smákökunum við í magann.
Ein af þeim hefðum sem var alltaf heima hjá mér, og ég hélt áfram með mínum börnum, var að öll fjölskyldan kom saman til að skreyta jólatréð á Þorláksmessukvöld. Þetta er afskaplega skemmtileg stund, jafnvel þó það hafi ekki alltaf allir verið sammála um hvað ætti að fara hvar á trénu. Við höfum alltaf stefnt að því að allt sé tilbúið hjá okkur fyrir jólahátíðina á Þorláksmessu, það eina sem væri eftir væri að skreyta jólatréð, og því getað notið þessarar stundar og Þorláksmessukvölds í sæmilegum rólegheitum. Það sem ekki er búið á Þorláksmessu verður bara ekki gert. Jólin koma samt og í mínum huga er það mikilvægara að eyða saman tíma en að hafa áhyggjur af því að það hafi gleymst að þurrka rykið ofan af hillunum í eldhúsinu. Fyrir vikið hefur Þorláksmessa verið full af hlátri, smá spennurifrildum milli krakkanna, jólalögum og því að horfa á sömu jólamyndina ár eftir ár þegar búið er að skreyta jólatréð.
Um leið og ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, vona ég að allir finni tíma til að staldra við og njóta litlu hlutanna, þeirra sem skipta máli í stóra samhenginu. Eyðum tíma með þeim sem okkur þykir vænt um, sköpum minningar og hefðir á meðan við höldum í þær gömlu sem eru okkur kærastar.
Gleðileg jól!
Lilja Ólafardóttir, Hellissandi
