
Jólakveðja úr Hvalfjarðarsveit
Hefðirnar lifa
Ég hef alltaf verið mikið jólabarn, en í mínum huga eru jólin líka fyrst og fremst hátíð barnanna, bæði þeirra sem eru á barnsaldri og barnanna innra með okkur sem erum orðin fullorðin í árum talið. Í minningunni voru jólin hjá mömmu og pabba alltaf svo dásamleg. Það var bara einhver jólaandi sem skapaðist í Brekkuhvamminum á aðventunni og minnist ég æskujólanna alltaf með mikilli hlýju. Ég hélt reyndar lengi vel að það væru hefðirnar sem sköpuðu þennan jólaanda og var ég því lengi mjög íhaldssöm þegar kom að jólunum. Það mátti nákvæmlega engu breyta í undirbúningnum fyrir jólin því þá óttaðist ég að jólaandinn myndi ekki koma.
Þegar ég var að verða 18 ára gerðu foreldrar mínir mér þann óleik að flytja af æskuheimili mínu og var ég handviss um að ég myndi því aldrei upplifa jólin aftur á sama hátt. Fyrstu 17 ár ævi minnar leið mér alltaf eins og jólin kæmu þegar Inga og Halli á vídeóleigunni hengdu upp jólaljósakassann á húsið sitt. En jólin og jólaandinn héldu áfram að koma þó ég væri flutt úr Brekkuhvamminum og hætti að sjá þennan jólaljósakassa sem á stóð „Gleðileg jól“. Þrátt fyrir það hélt ég sem fastast í hefðirnar í langan tíma, en hef náð að slaka á þeim með árunum. Ætli ég hafi ekki sleppt tökunum á síðustu hefðinni fyrir tveimur árum þegar jólatréð var sett upp fyrir Þorláksmessu.
Tvær hefðir lifa þó enn og munu gera áfram. Annars vegar að hlusta á klukkurnar hringja inn jólin klukkan 18 á aðfangadagskvöldi og að hlusta á kveðjurnar í útvarpinu á Þorláksmessu. Aðventan finnst mér í raun ekki síðri en jólin sjálf og Þorláksmessa er uppáhalds dagurinn minn á árinu. Ég vakna spennt og kveiki á kveðjunum og það má ekki slökkva á þeim fyrr en þær klárast um kvöldið. Börnin mín hafa oft dæst yfir þessum kveðjum og þau segjast ekki skilja af hverju ég nenni að hlusta á þetta. Eitthvað segir mér samt að þessa hefð muni þau svo sjálf halda í þegar þau fara að halda sín eigin jól. Það er einhver ró sem fylgir því að hlusta á jólakveðjurnar á meðan ég pakka inn síðustu gjöfunum og hangikjötið mallar á eldavélinni.
Spennan fyrir jólunum í ár er aðeins meiri en um síðustu jól þar sem á þessu ári fluttum við loksins í húsið okkar sem við höfum verið að byggja hér í Hvalfjarðarsveit. Aðdragandinn að þessu húsi hefur verið mjög langur, en nokkuð mörg ár fóru í að finna lóð og klára deiliskipulag áður en hægt var að byrja að byggja. Sumarið 2024 byrjuðum við svo að byggja og um verslunarmannahelgina sama ár voru grindurnar reistar. Um verslunarmannahelgina á þessu ári fluttum við svo inn í húsið og gætum ekki verið ánægðari. Það er staðsett á lóð sem fékk nafnið Réttarhagi 2 og er úr landi Leirár í Leirársveit, rétt vestan við gamla Heiðarskóla. Hér líður okkur mjög vel og munum vonandi njóta jólanna hér um ókomna tíð.
Ég sendi öllum Vestlendingum jólakveðjur héðan úr sveitinni og vona að þið njótið jólanna á þann hátt sem þið viljið helst - og að jólabarnið innra með ykkur fái að njóta sín líka.
Gleðileg jól!
Anna Rósa Guðmundsdóttir, Leirársveit
