Laufey Bjarnadóttir

Jólakveðja úr Eyja- og Miklaholtshreppi

Það kemur ljós með nýju lífi

Á jólunum fögnum við fæðingu Jesú. Einnig er þetta hátíð ljóss og friðar. Nýtt líf kemur í heiminn með boðskap um frið á jörðu. Það væri sannarlega óskandi að friður væri á jörðu og engin stríð væru háð, mörg hver tilgangslaus með öllu og oft á tíðum heimatilbúinn vandi í bæði þröngu og víðu samhengi.

Þegar ég var lítil fannst mér að heimurinn ætti að verða laus við öll stríð og allir væru vinir, en því miður er það ekki þannig. Á þeim tíma var kalda stríðið mikil ógn og var ekki hjá því komist að finna verulega fyrir því ásamt ítrekuðum átökum í Mið-Austurlöndum. Fréttir á þeim tíma voru ekki eins mikil síbylja og í dag, en okkur hættir til í dag að loka eyrunum fyrir endalausum endurteknum fréttum af stríðum bæði nær og fjær. Þegar nýtt líf kemur er óhjákvæmilegt að leiða hugann að því að mörg líf renna einnig sitt æviskeið. Sum með ótímabærum hætti og mikilli sorg, önnur þar sem lífið hefur fyllt upp í lífdaga með allri sinni gleði og sorg. Gleymum ekki þeim sem eiga við erfiðleika að etja um þessar hátíðar, en gleðjumst einnig með þeim sem fagna nýju lífi. Ljós kemur með nýju lífi og það má yfirfæra á aðra gleði þessarar hátíðar sem er hækkun sólar á lofti. Það sem af er þessu skammdegi hefur sólin skinið skært þessar stundir sem hún nær að komast upp fyrir sjóndeildarhringinn. Það er tilkomumikið þegar hún kemur upp úr hafinu og sest aftur í hafið. Tunglið tekur svo við og lýsir upp næturnar svo það er vel ratljóst. Norðurljósin hafa dansað um himininn svo Fésbókin logar af þeim myndum. Á næsta ári verður sólmyrkvi hér á landi og munum við hér á Snæfellsnesi verða að öllum líkindum vör við mikinn fjölda ferðamanna, bæði erlendra og innlendra. Þetta verður upplifun sem enginn mun vilja missa af.

Dagarnir hér í sveitinni um jólin eru eilítið öðruvísi en hjá þeim sem vinna dagvinnu og eiga frí um helgar og hátíðisdaga. Við sem höldum dýr þurfum að sinna þeim alla daga, jafnt á aðfangadagskvöldi sem nýársdagsmorgni. Lagður er grunnur að því að lömb fæðist næsta vor með tilhleypingum til ánna. Kálfar fæðast þegar þeim hentar, hvort sem það er dagur eða nótt. Sinna þarf verkum í kringum kýrnar, sjá til þess að þær verði mjólkaðar og að fóður sé hjá þeim. En það er alltaf hátíðlegt að eiga þessar stundir með dýrunum á aðfangadagskvöld, það er eins og þau skynji hátíðleikann í loftinu. Vandað er til verka á aðfangadag, keyrt hey í útigang og sett hey inn til dýranna inni eins og hægt er, svo húsbændur geti átt heldur náðugri jóladag í rólegheitum yfir miðjan daginn að lágmarki. Um áramót þarf sérstaklega að huga að útigangi, hafa nóg hey og tryggja að hross séu í góðu hólfi svo þau tryllist ekki ef hljóðbært verður á gamlársdagskvöld þegar flugeldar springa með látum. Það er fátt leiðinlegra en að tapa hrossum upp um fjöll og firnindi við þennan gleðskap sem fylgir áramótagleðinni.

Hér á bæ verða hátíðirnar með hefðbundnu sniði og vonumst við eftir góðu og stilltu veðri þannig að framkvæmdir við byggingar geti haldið ótruflaðar áfram. Í búrekstri þarf að halda í við viðhald og endurbætur til að fylgja öllu inn í framtíðina. Við vonumst til að framtíð landbúnaðar á Íslandi verði björt og sveitirnar haldi áfram því mikilvæga hlutverki að tryggja fæðuöryggi landsmanna. Það þurfa stjórnvöld að tryggja með áframhaldandi stuðningi við landbúnaðinn bæði í orði og verki. Í rekstrarumhverfi landbúnaðarins þarf mikinn fyrirsjáanleika inn í framtíðina.

Við óskum landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs!

Laufey Bjarnadóttir, Stakkhamri

Miklaholtskirkja. Myndin var tekin á nýársdag 2025