
Jólakveðja úr Dölunum
Jólin eru ævintýri
Þegar þetta er skrifað eru fastir liðir tilverunnar farnir að minna á tíðina fram undan. Jólatónleikarnir Er líða fer að jólum eru orðin árleg hefð hér í Dölunum en þar koma heimamenn saman fyrir stútfullu húsi og syngja vel valin jólalög. Jólamarkaðurinn var aðra helgi í aðventu, þar sem afurðir úr héraði áttu heiðurssess. Krakkarnir í Auðarskóla eru að færa sig inn í dagskrá þar sem hugað er að ýmiss konar jólaundirbúningi. Jólaljósin eru að kvikna víða um sveitir og jólalögin óma í útvarpinu. Aðventan er gengin í garð.
Þetta eru fimmtu jólin mín hér í sveitinni í Dölunum og með hverju árinu þá mótast hefðir fjölskyldunnar. Þær eru þó byggðar á gömlum grunni og það er margt sem ég tek úr minni barnæsku inn í jólin okkar í Þurranesi.
Þegar ég var yngri var ávallt mikil tilhlökkun fyrir jólin. Aðventan var töfrandi tími – litrík ljósin lýstu upp myrkrið og alla tilveruna. Á mínu heimili voru jólin hálfgert ævintýri og mikið lagt upp úr hátíðleika og gleði í bland. Það var föndrað, bakað, borðað og spilað. Fjölskyldan var þungamiðjan í öllu þessu stússi og foreldrar mínir í aðalhlutverki og léku það hlutverk vel.
Eins og hjá flestum börnum þá var aðfangadagur næstum jafn langur og föstudagurinn langi, fyrir utan það að sá síðarnefndi var mun, mun leiðinlegri. Spennan var áþreifanleg svona í aðdraganda jóla og foreldrar mínir brugðu á ýmis ráð til að draga úr henni. Til dæmis var lengi farið í póstkorta- og pakkasendingar á aðfangadag. Þá voru teknir stórir bunkar af jólakortum og skottið fyllt af jólagjöfum og öllu raðað skipulega eftir póstnúmerum og gatnakerfum því það þurfti að skutlast víða. Á leiðinni var komið við hjá ömmu og afa, langömmu og afa, frænkum og frændum og þegnar smákökur og góðgæti á meðan skipst var á gjöfum og jólakveðjum.
Seinna, þegar hefðin fyrir jólakortunum hafði minnkað breyttist afþreyingin á aðfangadag. Þá var brugðið á það ráð að fara með alla í sund um morguninn. Þetta var náttúrulega bráðsnjallt, því þarna vorum við krakkarnir orðin stærri og baðherbergið heima umsetið á aðfangadag af unglingum sem vildu hafa sig til. Með því að skella sér í sund voru allir baðaðir fyrir hádegi og minna bankað á baðherbergishurðina fram eftir degi. Þessi seinni ár var vel útilátinn bröns í hádeginu og oft vorum við þar 12-15 manns að borða saman, mamma og systir hennar ásamt föruneyti. Það var reyndar líka bráðsnjallt því þá kom enginn inn í eldhús klukkan 16.00 og sagðist vera svangur. Það voru allir mettir fram að jólamatnum, sem var upp úr kl. 18.00. Ég segi „upp úr“ því eins og hjá öllum „venjulegum“ fjölskyldum, voru aldrei allir alveg tilbúnir þegar klukkan sló jólin inn. Það brást ekki að einhver kallaði „KLUKKAN ER ORÐIN SEX!“ og það lögðu allir allt frá sér og föðmuðust. Pabbi í hálfhnepptri skyrtunni, mamma yfir sósupottinum – jólin voru komin. Nú gat hin eiginlega veisla hafist og drifið var í að koma matnum á borðið. Flest árin var það humar, hamborgarhryggur og sítrónufrómas. Hin heilaga þrenna jólanna og eitt af því fáa sem stóðst tímans tönn. Gjafirnar voru yfirleitt eitthvað lágstemmt og jólin voru fullkomin ef maður fékk bók, rúmföt og náttföt því það var ávísun á góða tíma fram undan.
Nú held ég jól í Dölunum og þó atgangurinn sé minni þá er margt sem minnir á gamla tíma, í bland við nýjar hefðir. Í sveitinni bera jólasveinarnir út jólakortin og koma með þau á Þorláksmessu, ásamt góðgæti handa krökkunum. Á aðfangadag höfum við forréttahlaðborð og er tekinn góður tími í að borða vel svo allir fari mettir inn í daginn. Deginum er svo varið í að pakka síðustu gjöfunum inn, föndra, púsla eða spila. Seinni partinn fá kindurnar svo vel að éta og er það siður að krakkarnir fá að fara með í fjárhúsin og kalla „Gleðileg jól!“ þegar búið er að gefa. Heima er ég í eldhúsinu og höfum við haldið okkur við hina heilögu þrennu: humar – hamborgarhrygg – frómas. Reyndar tvær gerðir af frómasi, eins og samsettum fjölskyldum sæmir.
Ég held að veganestið sem ég fékk sem barn sé að jólin eru fyrst og fremst tilhlökkun og gleði og með smá hugmyndarflugi – hreint ævintýri. Ég vona að þið eigið líka ævintýraleg jól, það þarf ekki stórar gjafir til þess, bara hvert annað.
Með kærleikskeðju úr Dölunum,
Linda Guðmundsdóttir, Þurranesi í Saurbæ
