„Ég var þarna úti í Skotlandi í haust að halda andlitinu í vatninu í ánni í sjö sekúndur, til þess að öðlast eilífa æskufegurð og visku. Beauty is pain!“

Jólakveðja úr Borgarfirði

Gleðileg jól í fjósinu

Jólaundirbúningurinn hefur breyst á þessari hálfu öld sem við hjónin höfum haldið saman jól. Það skiptir ekki höfuðmáli að allt sé tekið í gegn og þrifið hátt og lágt svo hvergi sjáist blettur né hrukka. Ég heyrði einu sinni málshátt sem er svona: My home is clean enough to be healthy and happy enough to be dirty. Það er nokkuð til í þessu. Grýla kemur ekki og tekur óþægu börnin í pokann sinn og jólakötturinn ekki fátækt fólk sem fær ekki nýja flík fyrir jólin. Jólasveinarnir koma ekki með látum og hrekkja bændur og búandlið. Ég hlýt að hafa stundum verið óþekk en Grýla kom ekki og mér hefur alltaf þótt vænt um ketti.

Mín bernskujól voru eins og þau eru enn haldin á sveitabæjum í bland við mjaltir og aðra skepnuhirðingu. Undirbúningurinn voru hefðbundin extra þrif eins og mamma sagði, svona betra en venjuleg laugardagsþrif. Svo var bakað þetta hefðbundna jólabakkelsi; gyðingakökurnar og hálfmánarnir, sem foreldrum mínum fannst ómissandi enda sjálfsagt „jólabakkelsið“ frá þeirra  æsku. Mér fannst þær alltaf frekar lítið spennandi en þegar loftkökur (Þingeyingar) rötuðu á kökudiskinn á aðfangadagskvöld léttist brúnin mín. Á aðfangadag var gefið í fjárhúsunum í fyrra fallinu og kannski mjólkað aðeins fyrr en kýr eru vanafastar og vilja sína rútínu í mat og drykk hvað sem einhverjum jólavenjum líður hjá fólki sem hefur þann starfa að sinna þeim. Jólamaturinn var alltaf hangikjöt af heimaslátruðu og heimareykt á nágrannabæ og í eftirrétt ávaxtagrautur með rjóma. Svona graut kaupir maður núna í fernu bara í Nettó eða Bónus og gleypir í sig þegar afgangurinn af hádegismatnum þarf ábót í kvöldskattinn.

Jólatréð var ca 30 sm hátt gervMackitré með stjörnu á toppnum og nokkrum mislitum kúlum á greinunum og mér finnst í minningunni við pabbi höfum „alltaf“ skreytt það saman. Þetta jólatré er það fyrsta sem foreldrar mínir keyptu sér saman í búið. Reyndar var þeim jólum frestað vegna þess að mamma var við vinnu í Reykjavík og komst ekki í sveitina til kærastans fyrr en á annan í jólum. Þá var litla jólatréð skreytt í fyrsta sinn. Annað skraut var pappa skraut, langar lissur festar í loftið með teiknibólum. Kerti voru afar varlega notuð enda gamli bærinn okkar klæddur innan með trétexi og utan klæddur með asbesti svo eldsmatur var nægur ef ekki var varlega farið. Núna, 70 árum síðar, er þetta tré í minni eigu og skreyti ég það af mikilli sérvisku hver jól og kem því fyrir uppi á hillu.  

Annað tré er líka skreytt á heimilinu okkar en það er tré sem keypt var þegar Bjartmar minn var tveggja ára á hans æskuheimili og móðurbróður hans fannst ómögulegt að ekki væri til jólatré þar sem barn væri í bænum. Það tré er með nokkrum greinum og á hverri grein var klemma sem í var fest logandi kerti og bera greinarnar þess merki að hafa komist í snertingu við bæði vax og loga. Eftir að hann fékk tréð hafa ekki logandi kerti verið notuð heldur sería sem lýsir frá rafhlöðum og er stjórnað með fjarstýringu. Svona breytast nú tímarnir en minningarnar verða alltaf til staðar hjá okkur meðan við munum eitthvað.

Þriðja tréð sem sett er upp hjá okkur er svo lifandi tré skreytt nú til margra ára með aðstoð barnabarna sem fá að launum aðgang að Mackintosh dósinni. Engin regla er á skrautinu, bara að hafa gaman saman og þá er allt eins og það á að vera.

Í fyrsta sinn sem við hjónin héldum okkar jól saman á eigin heimili fyrir 50 árum, þá nýorðnir kúabændur á Hreðavatni, var það Daníel Kristjánsson skógarvörður og bóndi sem gaf okkur lifandi tré. Þetta var rauðgreni sem hélt ekki vel barrinu og jólatrésfótur var ekki á fjárhagsáætlun. En þetta var fallegt tré, gefið af góðum hug eins og Daníels var von og vísa. Hann var mikill öðlingur og reyndist okkur afar vel. Skraut á þetta tré var keypt og ekki man ég það fyrir víst en trúlega var það skrifað í Kaupfélaginu. Lítil tíu ljósa sería sem fyrir löngu er ónýt og tíu appelsínugular kúlur úr einhverju skrítnu efni sem ekki var hætta á að brotnuðu þó litlar hendur sonarins freistuðust til að taka svolítið á þeim. Þessar kúlur eru flestar enn til og fara á tréð um hver jól og þessari spurningu hefur oft verið svarað. „Af hverju appelsínugular kúlur, eru þær jólaskraut?“ Já, þær eru jólaskrautið okkar. Eina breytingin er að nú er margskonar annað skraut, margt með sína sögu, sem ratar á tréð auk appelsínugulu kúlnanna. Ljósin eru talsvert fleiri en tíu og jólatrésfóturinn sér trénu fyrir nægjanlegu vatni. Þegar klukkan slær sex á aðfangadagskvöld erum við stödd í fjósinu við mjaltir og gleðilegra jóla kossinn er kysstur í mjaltabásnum þegar þannig stendur á hjá kúnum.

Megi allt gott gefa okkur gleðilega hátíð!

Jólakveðja frá Norðurreykjum í Hálsasveit,

Kolbrún Sveinsdóttir