Guðrún Lilja Magnúsdóttir

Jólakveðja frá Grundarfirði

Mikilvæga jóladagatalið

Þar sem þetta er jólakveðja úr héraði verð ég að koma hreint fram með að mitt hérað er ekki Grundarfjörður, heldur lítill hreppur í Flóanum, nefnilega Villingaholtshreppur, sem liggur að Þjórsá í um það bil tíu mínútna akstursfjarlægð frá Selfossi. Ég er langyngst minna systkina og pabbi sá um að ég fengi alltaf súkkulaðidagatalið góða frá Lions um jólin. Það var og er svo einstakt á bragðið, engin tannkremstúpa fylgdi þó með hér áður fyrr, en 24. desember var alltaf risastór á miðju dagatalinu og þar var andlit jólasveinsins. Ein jólin, örugglega 1978, var hins vegar ákveðið að bregða út af dagatalahefðinni og vil ég meina að sú ákvörðun hafi gert það að verkum hversu föst ég varð og er í jólahefðum. Þessi tilraun til breytinga markaði mig fyrir lífstíð og gleymist aldrei í okkar fjölskyldu en hefur verið mér sjálfri víti til varnaðar æ síðan. Ég var fimm ára, krúttlegt sveitabarn, og náði stundum að snúa fullorðnum systkinum mínum eins og skopparakringlu í kringum mig, sérstaklega þeim eldri af bræðrum mínum. Hann sagði sjaldan nei við mig og alltaf gat ég leitað til hans (svo allri sanngirni sé gætt, þá voru hin systkini mín alveg ágæt líka).

Pabbi hafði alltaf keypt Lionsdagatalið í Hafnarbúðinni á Selfossi, nema að þetta árið fengust í fyrsta skipti útlensk búðardagatöl og þessi eldri bróðir minn, hann Bubbi, keypti handa litlu systur sinni það fallegasta jóladagatal sem sést hafði fyrr og síðar. Þetta var þrívíddardagatal, með jólafígúrum á skautum, hægt var að toga í flipa til að láta fígúrurnar dansa fram og til baka og í bakgrunni voru jólatré og jólahús. Dagatalið gat staðið sjálft og þar sem það kom í hús um miðjan nóvember starði ég á það gjörsamlega heilluð í marga daga og eftirvæntingin stigmagnaðist áður en ég fékk að opna fyrsta hólfið.

Enskukunnátta okkar í sveitinni var minni en engin og því kom það skemmtilega á óvart að fyrsta daginn fékk ég lítinn bleikan hest sem hægt var að þræða upp á band og hafa um hálsinn. „Núhhh þetta er svona dótadagatal,“ sagði pabbi og okkur fannst þetta allt svo sniðugt og mikið undur, svo ekki sé minnst á gerð dagatalsins. Næsti dagur færði mér svo lítinn demantshring og þetta stefndi í að verða mín allra bestu jól. Alveg þar til að ég opnaði hólfið 6. desember. Þar sem bróðir minn er þrettán árum eldri en ég var hann í vinnu og hann var búsettur á Selfossi. Mamma var vöknuð þegar ég skreið á fætur, pabbi líka og farinn út í bílskúr í eitthvað vélabras. Með stírur í augunum skreið ég á fætur, greip dagatalið og opnaði hólfið. Ég man ekki mikið meira, mamma hefur sagt að hún hafi heyrt öskur sem engu líktist og aldrei ætlaði að hætta. Hún hentist inn í herbergi. Þar sat ég, búin að henda dagatalinu frá mér, algjörlega viti mínu fjær. Hinn bróðir minn var heima og vaknaði og sótti pabba. Öll þrjú stóðu þau ráðalaus í kringum mig, sem þó var hætt að öskra en við tók óstjórnlegur grátur og ég benti á dagatalið. Einsi bróðir minn skoðaði það og ekki tók þá betra við. Hann sprakk úr hlátri og veiddi upp risastóra og kolsvarta flugu úr plasti, með vængjum og stórum augum. „Ertu hrædd við þetta,“ spurði hann hlæjandi. „Svona, vertu ekki að hlæja að þessu, hverjum dettur í hug að setja svona lagað í barnadagatal?“ svaraði pabbi byrstur og smám saman tók ég að róast þó ég væri ekki alveg til í að sleppa tökunum á tárunum og dramatískum grátnum, ekki fyrr en mamma var búin að ná sambandi við Bubba bróður á Selfossi og biðja hann að bjarga þessu við fyrsta tækifæri. Og auðvitað gerði hann það, nokkrum mínútum síðar var hann mættur í sveitina með Lionsdagatalið gamla og góða.

Síðan þá hafa engar breytingar verið gerðar á dagatalamálum á mínu heimili. Pabbi sá um þau kaup þar til ég flutti að heiman og eftir það hef ég sjálf keypt mér dagatal hver jól. Þið hljótið því að skilja tregðu mína til að breyta út af jólahefðum.

Það greip mig því mikil angist þegar ekkert Lionsdagatal var til sölu í Grundarfirði fyrir þessi jól. Þá var það gott Lionsfólk í nágrannabæ mínum, Snæfellsbæ, sem bjargaði málum og færði mér dagatal heim á tröppur.

Ég vil að þetta verði þeim víti til varnaðar sem ætla sér í róttækar breytingar á jólahefðum. Ég sendi Lionsfólki um allt land þakklæti, sérstaklega þeim í Snæfellsbæ, fyrir að ég skuli yfirhöfuð geta haldið jól.

Ég sendi að lokum jólakveðjur í mitt gamla hérað, Villingaholtshreppinn, og til Bubba bróður, hefðu þeir í Snæfellsbæ ekki bjargað málum núna hefði hann sennilega verið ræstur út í annað sinn. Gleðileg dagatalajól, þið öll til sjávar og sveita.

Guðrún Lilja Magnúsdóttir, Grundarfirði

Frá Grundarfirði. Grundarfjarðarkirkja, en í forgrunni er listaverkið 112 tilbrigði íslenskrar tungu um vind, eftir Sólrúnu Halldórsdóttur.