
Jólakveðja frá Borgarnesi
Það er alltaf val
„Borgarnes er bærinn minn,“ er leikskólalag sem við fjölskyldan lærðum fljótlega eftir að við fluttum í Borgarnes fyrir nokkrum áratugum síðan. Þá þekktum við enga í bænum og það sem dró okkur hingað var ákveðin ævintýraþrá og staðsetning bæjarins. Hér höfum við alið upp dætur okkar, tekið þátt í samfélaginu og kynnst frábæru fólki.
Í íbúakönnunum kemur gjarnan fram að íbúar á Borgarfjarðarsvæðinu eru ekki ánægðir með samfélagið sitt og ég hef heyrt að það þyki erfitt að tengjast inn í þetta samfélag. Þetta er eitthvað sem ég bara skil alls ekki. Í mínum huga er þetta dásamlegur staður að búa á. Hér er náttúran allt um kring; uppáhalds Hafnarfjallið, Borgarvogurinn og fuglalífið, holtin og útsýnið til allra átta. Hér er fáránlega góð þjónusta, hér er margs konar afþreying í boði og hér býr líka allskonar frábært fólk.
Auðvitað væri flottara ef stígar væru malbikaðir, engar holur væru í götum, að allir væru alltaf ánægðir í skólanum sínum, að allir fengju þá þjónustu sem þeir vildu þegar þeir vildu. En lífið er ekki þannig og ég vel að horfa á það jákvæða í samfélaginu eins og það er.
Í aðdraganda jóla tilheyrir að rifja upp sögur úr æsku og velta fyrir sér samfélagsbreytingum. Ég get rifjað upp eplakassann sem var keyptur fyrir hver jól og aldrei kláraðist því allir voru saddir af smákökum, tertum og kakói, eða hreingerningaræðið, þar sem m.a.s. bækurnar voru viðraðar. Mamma saumaði jólafötin á dæturnar fram á nætur, því dagurinn fór auðvitað allur í hefðbundin bústörf auk þess að baka þurfti slatta af smákökum og tertum fyrir jólahátíðina. Ég get rifjað upp reglusemina í bústörfunum. Hrútum var hleypt til ánna 22. desember, ekki degi fyrr, ekki degi seinna og fjósverkin hófust alltaf á sama tíma, alla daga ársins nema einn! Á aðfangadag var gerð undantekning svo unnt væri að borða jólamatinn á slaginu sex þegar jólin voru hringd inn í útvarpinu. Jólamessan í sjónvarpinu og jólanóttin þegar jólabækurnar voru lesnar upp til agna.
Sjálf reyni ég að slaka á stressinu í aðdraganda jóla og höfuðáherslan er á samveru fjölskyldunnar eins og aðra daga. Vissulega á hvert jólaskraut sinn stað í húsinu, rútínan á Þorláksmessukvöld og aðfangadag er dálítið heilög en við höfum ekki lagt mikið upp úr að dusta bækur eða baka margar tegundir af smákökum. Hefð er að fara í aftansöng á aðfangadag. Í gegnum tíðina hefur það verið krefjandi að vera með órólegt smábarn sem þarf að halda sæmilega hljóðu í þennan klukkutíma eða stálpaðar stelpur sem velta fyrir sér hvenær þetta sé eiginlega búið! Í faraldrinum voru hvorki aftansöngur né fjölskylduboð leyfileg. Einhver „YES“ heyrðust á heimilinu, en viti menn – árið eftir var talsverður spenningur að komast aftur í kirkjuna og taka inn hátíðina á einstakan hátt. Eins og áður þá eru það samveran og hefðirnar sem skiptu máli, ekki hvað hver fékk í jólagjöf.
Þegar horft er til baka kemur í ljós að álag á foreldra var mikið, bara öðruvísi álag en í dag. Ég er viss um að mér þætti flókið að sauma jólaföt á stelpurnar og baka fjöldann allan af smákökum og tertum, samhliða daglegu lífi í desember.
Ég er hugsi yfir því hvernig samfélagið er að þróast og þeim kröfum sem við setjum á okkur sjálf og börnin okkar. Við fáum endalaust framboð af allskonar áreiti í gegnum samfélagsmiðla, auglýsingar um allskonar dót og drykki sem eiga að bæta lífið. Opinber orðræða er gróf og ægileg reiði ríkir á samfélagsmiðlum og þróunin í notkun ávanabindandi efna er ógnvekjandi. Samt líður okkur ekki vel.
Ein af mínum uppáhaldsbókum heitir „Listin að vera fokk sama“ þar sem bent er á að við höfum takmarkaða orku og þurfum að velja hvað í lífinu skiptir okkur máli og sleppa tökunum á hinu. Af hverju ætti ég að hafa áhyggjur af því hvort systir mín eigi dýrari bíl en ég eða hvort nágranni minn fari oftar til Tene en ég?
Lífið hendir í okkur alls konar verkefnum. Það er óhjákvæmilegt, en við höfum alltaf val um hvernig við tæklum þær áskoranir. Stundum þarf maður að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Ég kýs að hafa glasið mitt hálffullt og ég vel að sjá það jákvæða og eyða orkunni í það sem færir mér gleði frekar en að fjargviðrast yfir einhverju sem ég get ekki haft áhrif á. Það er á mína eigin ábyrgð en ekki annarra að líða vel. Ég vel að forgangsraða mínum tíma í það sem veitir mér vellíðan, gjarnan einfalda hluti eins og að hlaupa úti og hlusta á tónlist, fylgja stelpunum mínum í þeirra verkefnum, horfa á íþróttaviðburði, njóta samvista með fjölskyldunni eða lesa bók og fara snemma að sofa. Ég vel að láta utanaðkomandi pressu um þennan og hinn lífsstílinn ekki hafa áhrif á mig.
Ég vel að njóta líðandi stundar og hlakka til þess sem lífið hefur uppá að bjóða.
Og ég vel að vera fokk sama um hvað öðrum gæti fundist um það. - Gleðilega hátíð!
Hrafnhildur Tryggvadóttir, Borgarnesi
