Jólakveðja frá Akranesi

Það er gamall og góður siður að senda jólabréf, en þau voru fyrr á dögum hugsuð sem nokkurs konar ítarefni með jólakveðjum. Í jólabréfum voru, auk þess að senda kveðju til heimilisfólks, sagðar fréttir úr sveitinni. Skessuhorn leitaði nú sem fyrr til nokkurra valinkunnra kvenna víðsvegar á Vesturlandi og voru þær beðnar að senda lesendum jólabréf úr sínu heimahéraði. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Efnistök voru gefin frjáls og því kennir nú sem fyrr fjölbreytni í þessum vinalega og góða sið. Við byrjum á Akranesi en síðar í dag munu kveðjurnar birtast hér á vefnum ein af annarri.

Martha og Sturla Björnsson sonur hennar.

Verum ljós

Kæru lesendur! Það kannast eflaust flestir við upptakt jólanna sem læðist að okkur þétt og örugglega úr ýmsum áttum. Verkefnalistinn raðast upp í hausnum, og maður fer að keppast við tímann um að reyna að skapa jafnvægi á milli vinnu og jólaundirbúnings og gleyma sér ekki í hraðanum. Á þessum tíma er mikilvægt að staldra við og spyrja sig hvernig maður ætli að haga undirbúningi jólanna og hvað það er sem skiptir raunverulega máli?

Þetta er í sjálfu sér ekki flókin spurning. En nauðsynleg áminning um það að lífið er ekki sjálfgefið og jólin koma þrátt fyrir að ekki sé búið að haka við allt á listanum. Jólin eru tími samveru fyrir mér. Þau minna mig á mikilvægi þess að rækta tengslin við þau sem standa mér næst, kærleikann og nánd við fjölskyldu og vini.

Það upplifa allir jólin á sinn hátt, stundum breytilega frá ári til árs. Sú tilfinning sem jólin og undirbúningur að þeim minna mig á þegar skammdegið færist yfir og maður fer að kveikja á kertum er þakklætið. Þakklæti fyrir það sem ég á og áminning um að gera mitt besta til að iðka umburðarlyndi og að mæta öðrum í kærleika alla daga. 

Jól eru í grunninn hátíð kristinna manna þar sem við fögnum fæðingu Jesú Krists. Nálgun fólks á trúna er persónuleg og misjöfn. En kjarni sögunnar og boðskapur hefur verið mér skýr alla tíð. Ljós kemur í heiminn, það er okkar að vera þetta ljós. Bera það áfram í orði, verkum og því hvernig við mætum fólki.

Í starfi mínu sem forstöðumaður búsetukjarna fyrir fatlað fólk fæ ég að upplifa þetta ljós alla daga. Þó stór hluti af starfi mínu sem stjórnanda snúist um dagleg praktísk verkefni eins og skipulagsfundi, skráningar og margvísleg önnur mál þá er starfið lifandi og dásamlegt vegna fólksins, samverunnar, hlýjunnar sem felst í augnablikinu þegar við raunverulega sjáum hvort annað. Virðingin sem gefur okkur tækifæri til að mæta öllum eins og þau eru. Augnablikin verða gefandi þegar við sýnum alúð og hlýju.

Við þekkjum það að lífið færir okkur alls konar verkefni á lífsleiðinni, bæði gleðileg og erfið. Það er okkar að velja hvernig við bregðumst við þeim áskorunum sem lífið færir okkur. Það er val að mæta deginum í þakklæti, það er val að hlusta og bjóða náunganum upp á hlý orð. Það að vera meðvitaður um að valið er alltaf okkar getur breytt deginum og jafnframt haft áhrif á aðra.

Að ástunda þakklæti hefur haft mikil áhrif á líf mitt. Þegar augu mín opnuðust fyrir kraftaverkunum sem felast í því að lifa í þakklæti stækkaði hjartað mitt. Augu mín eru opin alla daga fyrir öllu því sem ég get verið þakklát fyrir. Heilsunni minni, tækifærunum sem mér bjóðast alla daga og litlu augnablikunum sem gefa hversdagsleikanum lit. Í þakklætinu finnur maður í senn mýktina og styrkinn sem er svo nauðsynlegt að dansi saman.

Mér þarf að þykja vænt um mig til að geta gefið af mér. Ég þarf að sýna mér mildi til að geta boðið öðrum mildi. Ég hef fundið svo áþreifanlega á eigin skinni hve samfélagið á Akranesi er dýrmætt og ríkidæmi okkar sem hér búum. Ég hef upplifað töfrana sem fylgja samfélaginu við fólkið og því að finna þegar fólk stendur saman. Þessu kynntist ég svo sterkt þegar ég missti svilkonu mína og bestu vinkonu. Í gegnum sorgina streymdi til mín meiri hlýja en ég hafði nokkurn tímann getað ímyndað mér eða getað búist við. Bæði frá fólki sem ég þekkti vel og líka þeim sem ég þekkti lítið. Allir komu með sína birtu, hlýju og kærleika, hver á sinn hátt.

Við vitum aldrei hvað nágranni okkar eða vinnufélagi er að ganga í gegnum, en þegar við gefum okkur tíma til nálgast hvert annað með virðingu og góðvild gerum við í raun stórkostlega hluti sem kosta auk þess ekkert. Við finnum öll styrk í samstöðunni og verðum meðvituð um að við þurfum ekki alltaf að bera verkefni lífsins ein.

Verum ljós fyrir hvert annað. Mig langar að nýta tækifærið á þessum tíma þegar við erum mörg oft að líta inn á við að hvetja okkur öll til að draga andann djúpt, líta yfir farin veg og spyrja; Hvað er það sem ég vil að vaxi og dafni í lífi mínu á nýju ári? Hvar get ég gefið hlýju? Hvað er það sem gefur mér orku og opnar hjartað mitt? Það þarf ekki að vera stórt, stundum er nóg að vera reiðubúinn að hlusta og sýna stuðning með þeim sem þurfa á því að halda.

Ég vona að jólin færi ykkur frið, styrk í sorginni, gleði í dagsins önn og hlýtt faðmlag frá þeim sem þið elskið. Ég vona að nýtt ár leiði ykkur inn í birtu þakklætis og þið finnið augnablikin í deginum til að staldra við. Megi jólin færa ykkur rólegar stundir, fjörugar stundir og allt þar á milli með ykkar besta fólki.

Martha Lind Róbertsdóttir, Akranesi