Kristján segist hafa gengið lygilega vel í lífinu og lítur björtum augum á framtíðina þrátt fyrir þau skakkaföll sem hafa fylgt alvarlegum veikindum hans. Hann er þakklátur fyrir að búa nú í Brákarhlíð í Borgarnesi og segist hvergi annarsstaðar vilja vera. Sunna Valgerðardóttir blm. skráði. Ljósm. mm.

„Mér finnst ég vera kominn heim aftur“

Kristján B. Snorrason er mörgum kunnugur. Hann hefur sinnt mörgum ólíkum hlutverkum í gegn um tíðina og finnst ekkert þeirra merkilegra eða stærra en annað. Kristján vann í nokkrum bönkum og stjórnaði þeim sumum, hann stofnaði hljómsveit, skipulagði viðburði, rak félagsheimili, lék fyrir dansi, gekk í skóla og stýrði ungmennafélagi. Meðal annars. Hann á líka börn og barnabörn, hann fer reglulega til miðils til að hitta systur sína og gengur með hringinn hennar mömmu á fingrinum. Nú býr Kristján á Brákarhlíð í Borgarnesi og segist ekki geta hafa lent á betri stað. Eftir tvennu sem hann mælir ekki með, hjartaáfall og heilablóðfall, er heilsan ekki upp á sitt besta en þráðurinn týnist aldrei lengi. Kristján ræðir við blaðamann Skessuhorns af rúmstokknum um lífið sem var og hvernig það fer í fallega hringi.