
Eingreiðsla til tekjulágra í desember á að berast fyrir helgi
Alþingi hefur samþykkt frumvarp Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra sem felur í sér eingreiðslu í desember til þeirra sem fengið hafa greiddan örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri, ellilífeyri eða fengið sjúkra- og endurhæfingargreiðslur á árinu 2025. Það sama á við um þá sem fengu á árinu greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
„Til að koma betur til móts við þá sem eru tekjulægstir verður full eingreiðsla 73.390 kr. og er hún undanþegin skatti, auk þess sem hún leiðir ekki til skerðingar á öðrum greiðslum. Til viðbótar við eingreiðsluna fá allir ofangreindir hópar desemberuppbót á grundvelli reglugerðar. Þannig er um tvær greiðslur í desember að ræða fyrir þau tekjulægstu,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Um er að ræða sérstaka eingreiðslu sem stundum er kölluð „Jólabónusinn“ og beinist nú sérstaklega að tekjulægstu hópum lífeyrisþega. Tryggingastofnun leggur allt kapp á að eingreiðslan berist til þeirra sem rétt eiga á henni fyrir helgi. Í framsöguræðu sinni í þinginu sagði ráðherra að með frumvarpinu væri tryggt að þeir sem minnst hefðu á milli handanna nytu raunverulegs ávinnings. „Þeir sem þurfa mest á því að halda fá mest,“ sagði Inga Sæland. Áætlað að 37.400 manns fái eingreiðsluna.