
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra, Magnús Hauksson framkvæmdastjóri Öryggisfjarskipta ehf., og Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri Skagastrandar voru viðstödd þegar samkomulag um átaksverkefnið var undirritað.
Átaksverkefni hafið um tvítengingu þéttbýlisstaða
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur hrundið af stað átaksverkefni til að tryggja að á annan tug þéttbýlisstaða og byggðakjarna verði tvítengdir, þ.e. fái tvöfalda ljósleiðaratengingu. Öll fjarskipti á þessum stöðum fara nú um einn ljósleiðarastreng. Við rof á slíkum strengjum verða staðirnir sambandslausir sé ekkert varasamband fyrir hendi. Samkomulag um átaksverkefnið var undirritað á Skagaströnd í liðinni viku þar sem verkefnið hófst í haust. Ríkisfyrirtækið Öryggisfjarskipti ehf. mun hafa umsjón með framkvæmdum í samvinnu við sveitarfélög og landeigendur o.fl. Átaksverkefnið er fjármagnað og tilkynnt verður á nýju ári hvar verður farið í úrbætur árið 2026.