Nemendur GBF á Hvanneyri afhenda Margréti Katrínu afrakstur söfnunar sinnar.

Saumuðu gjafapoka og seldu fyrir Samhug

Mannúðarverkefninu Samhugur í Borgarbyggð barst góð gjöf í vikunni sem leið. Þá færðu börn í Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar, Margréti Katrínu Guðnadóttur forsvarskonu í Samhug peningagjöf. Börnin höfðu tekið sig til; saumað og selt gjafapoka. Allur afrakstur sölunnar rann til verkefnisins. Í vikunni sem leið bárust fleiri gjafir og styrkir til verkefnisins, meðal annars frá kvenfélögum og fleirum.

Að Samhug í Borgarbyggð standa íbúar í sveitarfélaginu, í samvinnu við Borgarfjarðarkirkjur og Rauða Krossinn á Vesturlandi. Safnað er fyrir þær fjölskyldur sem þurfa auka stuðning fyrir jólin. Hópurinn safnar gjöfum, gjafakortum og peningum og er tekið á móti framlögum á skrifstofu Kaupfélags Borgfirðinga við Egilsholt í Borgarnesi. Einnig er hægt að leggja inn á reikning sem kirkjan hefur látið Samhug í té: 0357-22-2688, kt. 480169-3799.

Fram kemur á FB síðu Samhugar að stefnt er að úthlutun á morgun, mánudaginn 15. desember.