
Jólasveinar briddsfélagsins
Áratuga hefð er fyrir því hjá Bridgefélagi Borgarfjarðar að koma saman á föstudagskvöldi á aðventu og spila jólasveinatvímenning. Þá gerir fólk jafnan vel við sig í mat og drykk. Jón bóndi á Kópareykjum og formaður leggur meðal annars til tvíreykt, furukryddað sauðalæri auk þess sem kökur og kruðerí er á borðum. Kerfið er brotið upp og pör eru dregin saman áður en sest er við spilaborðið. Að þessu sinni urðu sveitungarnir Baldur Björnsson og Logi Sigurðsson Jólasveinar 2025. Þeir náðu 60,61% skori. Í öðru sæti urðu Flemming Jessen og Skagamaðurinn Bjarni Guðmundsson með 58,48% og þriðju Sveinbjörn Eyjólfsson og Guðmundur Kristinsson með 58,18%.
Næstkomandi mánudagskvöld verður hefðbundinn tvímenningur spilaður í Logalandi kl. 19:30 og eru allir velkomnir.