
Varað við suðaustan hvelli í fyrramálið
Vegagerðin var að senda frá sér aðvörun vegna veðurs á morgun. „Sunnan og suðvestanlands gerir hvell með austan- og suðaustan-átt framan af morgundeginum. Í Mýrdal og undir Eyjafjöllum má reikna með vindhviðum yfir 35 m/s frá kl. 7 til 11. Einnig á Kjalarnesi, í Hvalfirði og undir Hafnarfjalli frá um kl. 9 til 12. Á Vestfjörðum verða staðbundið mjög harðir hnútar um og fyrir hádegi með NA-átt, en hlýnandi veðri.“
Því má við þetta bæta að Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris. Á spásvæðinu Faxaflóa gildir hún frá klukkan 10-14 á morgun.