Fallegur kornakur í Ásgarði í Reykholtsdal. Ljósm. gj

Kornuppskera var með allra mesta móti

LANDIÐ: Atvinnuvegaráðherra hefur úthlutað styrkjum sem nema 76,7 milljónum króna til kornbænda. Stuðningurinn er veittur til framleiðslu á þurrkuðu korni sem uppfyllir tilteknar gæðakröfur og er einn þáttur aðgerðaáætlunarinnar „Bleikir akrar“ þar sem gert er ráð fyrir að verja um tveimur milljörðum króna til átaks í kornrækt á árunum 2024-2028. Þetta er í fyrsta sinn sem stuðningi við framleiðslu er úthlutað, önnur verkefni eru stuðningur við fjárfestingar í innviðum í greininni og við skipulegt kynbótastarf í kornrækt sem Landbúnaðarháskóli Íslands heldur utan um. Alls bárust 57 umsóknir sem allar voru samþykktar. Stuðningurinn nær til framleiðslu á um 5.300 tonnum af þurrkuðu korni, langmest byggi en einnig af hveiti og höfrum. Kornið er ræktað og þurrkað víða um land en uppbygging þurrkstöðva er einnig hluti af fyrrnefndu átaki í kornrækt.