Frá afhendingu gjafarinnar sl. miðvikudag. Til vinstri við tækið er starfsfólk lyflækningadeildar sem fær það nú til notkunar. Fyrir miðju er fulltrúi Inter sem flytur inn tækið en til hægri er stjórnarfólk í Hollvinasamtökum HVE. F.v: Ingi Karl Reynisson yfirlæknir á lyflækningadeild, Anna Þóra Þorgilsdóttir aðstoðardeildarstjóri, Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir deildarstjóri, Guðni Þór Scheving frá Inter, Sævar Freyr Þráinsson, Ingibjörg Valdimarsdóttir og Skúli G. Ingvarsson. Ljósm. mm

Hollvinasamtök HVE færðu sjúkrahúsinu PiPAP tæki

Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands afhentu sjúkrahúsinu í dag nýtt BiPAP öndunaraðstoðartæki að gjöf. Verðmæti þess er um 3,5 milljónir króna. Tækið mun nýtast við hjúkrun sjúklinga með öndunarvanda sem lagðir eru inn á lyflækningadeild HVE á Akranesi. Tæki sem þetta er í raun lífsnauðsynlegt hjálpartæki fyrir þá sem þurfa tímabundna eða viðvarandi öndunaraðstoð, án þess þó að þurfa að leggjast inn á gjörgæsludeild. Sævar Freyr Þráinsson, formaður hollvinasamtakanna, segir í samtali við Skessuhorn að söfnun fyrir tækinu hafi gengið afar vel og vilja samtökin færa öllum styrktaraðilum, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum innilegar þakkir.