Álfheiður og Gunnhildur.

Dagur sjálfboðaliðans – Takk sjálfboðaliðar á Vesturlandi!

Á Íslandi er fjölbreytt starfsemi borin uppi af eljusömu fólki sem gefur tíma sinn, kraft og þekkingu í formi sjálfboðaliðastarfs. Sjálfboðaliðar eru burðarliðir í góðgerðarfélögum, björgunarsveitum, ýmsu menningarstarfi, félagasamtökum og íþróttastarfi og án þeirra myndi margt sem við eigum það til að taka sem gefnu einfaldlega ekki verða að veruleika. Dagur sjálfboðaliðans, sem er 5. desember ár hvert, minnir okkur á að hlutverk sjálfboðaliðans er ekki bara mikilvægt; það er ómetanleg undirstaða í samfélaginu okkar.

Á hverjum degi taka þúsundir einstaklinga þátt í að skapa framúrskarandi umgjörð innan íþróttahreyfingarinnar okkar. Þessir aðilar dæma t.a.m. leiki og mót hjá yngri iðkendum, keyra lið og keppendur á keppnisstað og manna gríðarlegan fjölda af stjórnum og ráðum sem skipuleggja starfið og halda utan um fjármál hvers íþróttahéraðs, -félags eða deilda. Þessir sjálfboðaliðar vinna við framkvæmd leikja og viðburða, manna sjoppuvaktir, halda úti samfélagsmiðlum og standa að fjölbreyttum fjáröflunum svo örfá dæmi séu tekin. Allt er þetta gert af hugsjón til að halda uppi öflugu íþróttastarfi fyrir fólk á öllum aldri, þar sem árangur er ekki bara falinn í því að sigra heldur skilgreindur á fjölbreyttan máta. Þessi vinna myndi kosta íþróttahreyfinguna ómögulegar fjárhæðir ef fyrir hana væri greitt, en í skýrslu sem kom út á vegum ÍSÍ og UMFÍ árið 2024 er framlag sjálfboðaliða innan hreyfingarinnar metið á um 15 milljarða króna ár hvert.

Íþróttahreyfingin gegnir einnig veigamiklu og afar mikilvægu hlutverki gagnvart sveitarfélögum landsins en hún er langstærsti þjónustuaðili þeirra þegar kemur að tómstundaiðkun barna og ungmenna. Opinberir aðilar gætu aldrei haldið úti jafn fjölbreyttu, víðtæku og mannfreku starfi á eigin vegum og fylla íþróttafélögin því upp í skarðið af metnaði og ástríðu. Eins ber að nefna að skipulagt íþróttastarf er eitt öflugasta forvarnastarf sem við eigum og hefur það margoft sannað gildi sitt í þeim efnum. Með reglulegri hreyfingu, jákvæðu félagsstarfi og sterkum fyrirmyndum stuðlar þátttaka í íþróttastarfi, sé vel að því staðið, að líkamlegri, félagslegri og andlegri vellíðan barna og ungmenna. Þau læra að setja sér markmið, takast á við mótlæti og tilheyra hópi en allt eru þetta þættir sem styrkja þau á öllum sviðum lífsins og draga úr líkum á áhættuhegðun. Á æfingu fæst einnig að jafnaði kærkomið frí frá samfélagsmiðlum og skjáum sem skiptir máli í hraðara samfélagi. Það er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn - íþróttahreyfingin er stór hluti af því þorpi og sjálfboðaliðarnir hjartað sem heldur því gangandi. Þeir eru burðarstoðir íslenskrar íþróttamenningar og án þeirra væri ekkert af því íþróttastarfi sem við erum svo stolt af. Í tilefni af Degi sjálfboðaliðans fengum við fjóra öfluga sjálfboðaliða frá okkar starfsvæði til að svara nokkrum spurningum sem fylgja hér með.

Við viljum þakka öllum þeim sem hafa gefið vinnu sína, tíma og hjarta til íþróttastarfs á Vesturlandi. Framlag ykkar skiptir sköpum og hefur áhrif sem nær langt út fyrir æfingasali og keppnishallir. Takk fyrir að gera það öfluga íþróttastarf sem er á Vesturlandi mögulegt!

Álfheiður Sverrisdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir
Svæðisfulltrúar íþróttahéraða á Vesturlandi

Íþróttabandalag Akraness (ÍA)

Hver ert þú og hvaða reynslu hefur þú af sjálfboðaliðastörfum innan íþróttahreyfingarinnar?

Ég heiti Guðmundur Júlíusson, búsettur á Akranesi og faðir tveggja barna. Ég hef setið í stjórn Sundfélags Akraness um tíma og tekið þátt í fjölbreyttum og skemmtilegum sjálfboðaliðastörfum í gegnum árin fyrir ýmis félög innan ÍA. Þessi verkefni hafa verið ólík en öll jafn gefandi og hafa styrkt mig bæði persónulega og félagslega.

Hvers vegna tekur þú þátt í þessum verkefnum og hvað er skemmtilegast við það að vera sjálfboðaliði í íþróttahreyfingunni?
Ég tek þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar vegna þess að mér finnst hún gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið. Ef enginn er tilbúinn að leggja sitt af mörkum með sjálfboðavinnu þá versnar starfsemin smátt og smátt, og þess vegna finnst mér mikilvægt að leggja hönd á plóg. Það skemmtilegasta við að vera sjálfboðaliði er félagsskapurinn og það að sjá iðkendur vera ánægða, glaða og þakkláta fyrir þá upplifun og umgjörð sem við hjálpum til við að skapa.

Hvers vegna eru sjálfboðaliðar í íþróttahreyfingunni mikilvægir að þínu mati?
Sjálfboðaliðar eru burðarstoðir íþróttastarfs á Íslandi. Þeir halda starfseminni gangandi, skapa jákvæða stemningu og tryggja að börn og ungmenni fái að njóta góðrar aðstöðu, öryggis og fræðslu. Án sjálfboðaliða væri nær ómögulegt að halda úti jafn öflugu starfi og við þekkjum í dag. Ég hvet alla til að gerast sjálfboðaliðar og taka þátt í nærsamfélaginu sínu, það er bæði skemmtilegt, gefandi og skiptir máli.

Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH)

Hver ert þú og hvaða reynslu hefur þú af sjálfboðaliðastörfum innan íþróttahreyfingarinnar?
Ég heiti Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir og er fædd og uppalin í Grundarfirði. Þegar ég var yngri stundaði ég margar íþróttir og hafði gaman af. Að mínu mati er þetta málefni mjög mikilvægt í hverju sveitarfélagi og hef ég því viljað taka virkan þátt í íþróttastarfinu hér í bæ.

Ég sat í íþrótta- og æskulýðsnefnd í fjögur ár og þegar að ég lauk setu þar fór ég í stjórn Ungmennafélagsins Grundarfjarðar. Ég byrjaði þar sem gjaldkeri og tók síðar við sem formaður og sinni því starfi í dag.

Hvers vegna tekur þú þátt í þessum verkefnum og hvað er skemmtilegast við það að vera sjálfboðaliði í íþróttahreyfingunni?
Öflugt íþróttastarf er að mínu mati besta forvörnin fyrir börn og ungmenni. Það er því mikilvægt að fá áhugasamt fólk til að sinna sjálfboðaliðastarfi tengda íþróttum í hverju sveitarfélagi. Ég hef mikinn áhuga á íþróttum og vil ég leggja mitt af mörkum við að viðhalda og byggja upp öflugt íþróttastarf fyrir börn og ungmenni í bænum.

Það gefur mér mikið að sinna þessu starfi. Þegar vel gengur hjá iðkendum og iðkendafjöldi eykst gleður það mann og maður sér að maður er að gera vel.

Hvers vegna eru sjálfboðaliðar í íþróttahreyfingunni mikilvægir að þínu mati?
Öflugir sjálfboðaliðar eru undirstaða góðs íþróttastarfs. Það er því mikilvægt að fá áhugasamt fólk sem er tilbúið að sinna sjálfboðaliðastarfi fyrir félagið. Við erum mjög heppin hér, það eru margir sem eru tilbúnir að leggja hönd á plóg og aðstoða okkur þegar þörf er á. Verkefnin eru mörg og þetta skiptir allt máli. Lengi lifi ungmennafélagsandinn.

Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN)

Hver ert þú og hvaða reynslu hefur þú af sjálfboðaliðastörfum innan íþróttahreyfingarinnar?

Rúna Blöndal heiti ég og er búsett í Dalabyggð. Ég er formaður og stofnandi Íþróttafélagsins Undra og er einnig varaformaður UDN.

Hvers vegna tekur þú þátt í þessum verkefnum og hvað er skemmtilegast við það að vera sjálfboðaliði í íþróttahreyfingunni?
Ætli það sé ekki bara vegna ástríðu minnar fyrir mikilvægi íþróttaiðkunar barna. Verkefnin geta verið misjöfn eins og þau eru mörg, það skemmtilegasta er náttúrulega að sjá framfarir, góða þátttöku og gleðina sem fylgir því að fá að æfa.

Hvers vegna eru sjálfboðaliðar í íþróttahreyfingunni mikilvægir að þínu mati?

Sjálfboðaliðar eru íþróttahreyfingunni afar mikilvægir. Á minni svæðum þar sem fá börn eru skila fáir iðkendur takmörkuðum peningum í kassann til að greiða laun þjálfara og til að standa straum af öðrum kostnaði sem hlýst af íþróttastarfinu. Sjálfboðaliðar leggja þar sitt af mörkum til að koma til móts við þennan kostnað, meðal annars með því að sækja um styrki og standa að fjáröflunum. Það er líka mikilvægt fyrir margan einstaklinginn að leggja af mörkum til samfélagsins þar sem ástríða og áhugi liggur. Þannig læra kynslóðir hver af annarri.

Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB)

Hver ert þú og hvaða reynslu hefur þú af sjálfboðaliðastörfum innan íþróttahreyfingarinnar?

Ég heiti Sigríður Bjarnadóttir og er Borgnesingur með töluvert af dreifbýlisgenum. Ég ólst upp í kringum íþróttastarf, hef alltaf verið mjög virk og átti lengi vel erfitt með að finna NEI í minni orðabók og það eru einkenni mjög margra sjálfboðaliða sem ég hef kynnst á ævinni. Ég kom inn í stjórn badmintondeildar Skallagríms árið 2002 og sat þar óslitið til 2021. Árið 2004 steig ég inn í stjórn Badmintonsambands Íslands og var kosin formaður 2005. Var formaður sambandsins til 2011 eða í sex ár og eftir það var ég mótastjóri Badmintonsambandsins til 2016. Kom aðeins við í alþjóðastarfinu þegar ég var kosin í nefnd á vegum Badminton Europe, „European women in Badminton.“ Nefndin hafði það hlutverk að efla konur á öllum sviðum badmintoníþróttarinnar. Sat í þeirri nefnd til 2015. Árið 2018 tók ég sæti í stjórn UMSB sem gjaldkeri sambandsins eftir að hafa setið sem varavaragjaldkeri frá 2017 og sinnti því til 2022. Árið 2020 kem ég inn í störf körfuknattleiksdeildar Skallagríms og var kosin inn í stjórn KKD 2021 og hef verið formaður frá 2022. Nýjasta hlutverkið er fulltrúi í mótanefnd KKÍ en þar tók ég sæti nú í vor eftir ársþing KKÍ. Á þessu tímabili hef ég einnig setið í stjórn Umf. Skallagríms á mismunandi tímum og setið í nefndum á vegum Hestamannafélagsins Skugga/ Hestamannafélagið Borgfirðingur. Það eru gríðarlega mörg og fjölbreytt verkefni sem ég hef sinnt sem sjálfboðaliði. Formennska, gjaldkerastörf, mótsstjórn innlendra og alþjóðlegra móta, fjáraflanir, blaðaskrif, samfélagsmiðlar, bókhald og ársreikningar, samningar við styrktaraðila og allt þar á milli sem er ómögulegt að telja upp. Varlega áætlað þá gæti ég skotið á að meðaltali hafi farið u.þ.b. tveir tímar á dag í sjálfboðaliðastörf síðustu 25 árin, stundum miklu meira og stundum minna og ekki alveg hætt enn.

Hvers vegna tekur þú þátt í þessum verkefnum og hvað er skemmtilegast við það að vera sjálfboðaliði í íþróttahreyfingunni?
Minn helsti drifkraftur er ástríða fyrir íþróttum, ástríða fyrir betra samfélagi, skapa betri umgjörð fyrir börn og unglinga og gera betur í dag en í gær. Íþróttir eru meira en leikur, þær eru ákveðið samfélag og vettvangur þar sem einstaklingar ungir sem aldnir fá tækifæri til að vaxa og dafna og ná markmiðum sínum sem íþróttafólk og ekki síður sem manneskjur. Íþróttirnar voru mitt skjól og styrkur og björguðu mér sem barn og unglingur á margan hátt, bæði félagslega og eins héldu mér á beinu brautinni á unglingsárunum þó svo að eitthvað hafi orðið um hliðarspor. Ég vil einfaldlega borga til baka. Síðustu ár hefur vinna við framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja hér í Borgarbyggð haldið mér á tánum og hef ég gríðarlegan áhuga á því að við komumst loksins af stað með nýtt parkethús eftir að þörfin hafi verið til staðar í meira en 25 ár. Ég tel mig hafa töluverða reynslu til að leggja inn í þann undirbúning. Skemmtilegast er að sjá íþróttafólkið ná markmiðum sínum, sjá börn og unglinga blómstra, sjá gleðina og upplifa skemmtunina, að sjá meistaraflokksliðin skemmta íbúum, að upplifa viðburði takast vel til og svo margt, margt fleira. Það sem er lang dýrmætast er fólkið sem ég hef unnið með og kynnst á leiðinni, öll þau tengsl sem hafa orðið og að fá að tilheyra íþróttafjölskyldunni eða íþróttasamfélaginu.

Hvers vegna eru sjálfboðaliðar í íþróttahreyfingunni mikilvægir að þínu mati?

Þeir eru undirstaða í starfsemi íþróttafélaga. Þeir sjá um að afla félögunum tekna til starfseminnar, sinna stjórnarstörfum, sjá um framkvæmd móta, eru fararstjórar og svo mætti lengi telja. Fólk stendur í starfinu vegna þess að það finnur tilgang í að skapa umhverfi þar sem allir geta tilheyrt, lært og notið. Sjálfboðastarf styrkir samfélagið. Þegar foreldrar, aðstandendur og íbúar taka þátt verður sterkara félagslegt net í kringum börn og ungmenni. Það eykur þátttöku og jákvæð samskipti innan hverfa, bæja og sveitarfélaga. Sjálfboðaliðar verða oft einnig mikilvægar fyrirmyndir. Þeir kenna aga, samvinnu, ábyrgð og jákvæða hegðun. Þeir eru algjörlega nauðsynlegir í öllu mótahaldi þar sem þeir sjá um t.d. skráningar, línuvörslu, dómgæslu, tímamælingar, veitingasölu, öryggisgæslu, ritaraborð, hvers konar undirbúning og svo mætti lengi telja. Sjálfboðaliðar skipa stóran hluta þeirrar menningar sem gerir íslenskt íþróttalíf sérstakt - samheldni, jafnræði og þátttaka alls samfélagsins.