
Nýbygging í Ólafsvík. Ljósm. úr safni/af
Framlengja afslátt af gatnagerðargjöldum
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar ákvað á fundi sínum á dögunum að framlengja afslátt þann sem veittur hefur verið af gatnagerðargjöldum í sveitarfélaginu. Afslátturinn nemur 80% af gatnagerðargjöldum íbúðarhúsnæðis í þéttbýli sveitarfélagsins og 50% af gatnagerðargjöldum iðnaðarhúsnæðis í þéttbýli. Í samþykkt bæjarstjórnarinnar segir að lækkun gatnagerðargjaldsins feli í sér mikinn sparnað fyrir húsbyggjendur og standi vonir til að veittur afsláttur styðji við uppbyggingu á nýjum íbúðarhúsum og hvetji til áframhaldandi byggingaframkvæmda í þéttbýliskjörnunum þremur í Snæfellsbæ. Afslátturinn gildir nú til ársloka 2026.