Þannig leit svikapósturinn út sem 683 viðskiptavinir móttóku í morgun.

Svikapóstur sendur út í morgun í nafni starfsmanns Skessuhorns

Nýlega var brotist inn í tölvupóst hjá einum starfsmanni Skessuhorns. Í morgun voru síðan sendir út tæplega 700 svikapóstar í nafni Anítu Lísu Svansdóttur auglýsingastjóra Skessuhorns með viðfestri skrá. Viðtakendum er bent á að opna þessar skrár ALLS EKKI. Ráðlagt er að eyða þessum póstum og tilkynna jafnframt atvikið til tæknideildar hjá móttakanda eða viðkomandi kerfisstjóra. Ef reynt hefur verið að opna skjalið er fólki eindregið ráðlagt að endurnýja lykilorð í viðkomandi forriti.

Við nánari skoðun á þessu hjá tölvufyrirtækinu sem Skessuhorn á viðskipti við, kom í ljós að óprúttnir aðilar hafi brotist inn í tölvupóst starfsmannsins fyrir viku síðan. Síðan láta þeir skyndilega til skarar skríða og senda tölvupóst á netföng sem viðkomandi starfsmaður hefur átt í samskiptum við áður. Mælt er með að fyrirtæki hafa svokallað fjölþátta innskráningu í tölvur og önnur viðtæki starfsfólks til að koma í veg fyrir að hakkarar af þessu tagi valdi óskunda.

Skessuhorn biðst velvirðingar á óþægindum sem þetta hefur valdið og þakkar öllum sem látið hafa okkur vita. Samkvæmt heimildum Skessuhorns hefur mjög færst í vöxt á síðustu vikum og mánuðum að tölvuhakkarar nái inn fyrir varnarveggi fyrirtækja með þessum hætti.