Snæfell beið lægri hlut gegn ÍR

Lið Snæfells í 1. deild körfuknattleiks kvenna mætti ÍR í Skógarseli í Breiðholti á laugardaginn. Leikurinn var nokkuð jafn á köflum en frumkvæðið var oftar í höndum leikmanna ÍR. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 16-11 og í hálfleik var staðan 28-21 og leiknum lauk með sigri ÍR sem skoraði 64 stig gegn 57 stigum Snæfells. Atkvæðamestar í liði Snæfells voru Rebekka Rán Karlsdóttir sem skoraði 14 stig, Ellen Alfa Högnadóttir skoraði 11 stig, Helga Hjördís Björgvinsdóttir skoraði 10 stig, Anna Soffía Lárusdóttir og Adda Sigríður Ásmundsdóttir skoruðu 7 stig hvor, Natalía Mist Þráinsdóttir 6 stig og Alfa Magdalena Frost 2.