
Frá afhendingu þjónustumerkja til þeirra sem lengi hafa starfað í sveitinni.
Fjölmenni fagnaði með fimmtugum Berserkjum
Í ár fagnar Björgunarsveitin Berserkir í Stykkishólmi 50 ára afmæli. Af því tilefni var opið hús og kaffisamsæti í gær í húsi sveitarinnar að Nesvegi 1a. Fjöldi manns mætti til að samfagna með félaginu. Því bárust einnig gjafir. Lionsklúbbur Stykkishólms gaf sveitinni höfðinglega peningagjöf og Sveitarfélagið Stykkishólmur gerði það sömuleiðis en það hefur frá upphafi stutt vel við starfsemi sveitarinnar. Haldin voru ávörp og mættu m.a. gestir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Í afmælinu voru afhent þjónustumerki til þeirra sem lengi hafa lagt af mörkum óeigingjarnt starf sem skilar sér í virkri björgunarsveit. Virkir félagar í Berserkjum eru á þriðja tug en skráðir félagar á sjötta tuginn.