
Skúrinn formlega opnaður á Breið
Síðdegis í gær var svokallað Virkniþing haldið í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi. Gestum mættu ljúfir tónar harmonikkuleikara en að spilamennsku lokinni var stutt athöfn þar sem Skúrinn var formlega opnaður. Skúrinn er eins og fram hefur komið í Skessuhorni opið rými þar sem karlmenn 18 ára og eldri geta hist, rætt málin og unnið að fjölbreyttum verkefnum í góðum félagsskap. Þar hafa verið keypt og verið aflað ýmis verkfæri stór og smá til trésmíða og annarrar handavinnu. Markmiðið með Skúrnum er að skapa vettvang fyrir virkni, samveru og sköpun á eigin forsendum. Opnunartími Skúrsins verður framvegis fyrir nýliða alla þriðjudaga og fimmtudaga klukkan 13 til 16 en félagsmenn sem kynnst hafa starfseminni og húsnæðinu geta mætt á öðrum tímum. Skúrinn er hluti af samstarfi Fab Lab smiðju Vesturlands, Akraneskaupstaðar, Félags eldri borgara og Breiðar þróunarfélags. Formaður í stjórn Skúrsins er Eyþór Stanley Eyþórsson.