
Skallagrímur vann Vesturlandsslaginn stórt
Skallagrímur og Snæfell mættust í sannkölluðum Vesturlandsslag í 1. deild körfuknattleiks karla í Borgarnesi í gærkvöldi. Heimamenn sýndu gestunum úr Stykkishólmi enga miskunn og voru mun sterkari stærstan hluta leiksins. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 34-20 og í hálfleik leiddu heimamenn með 56 stigum gegn 37 stigum gestanna. Forskot heimamanna jókst enn frekar í þriðja leikhluta og að honum loknum var staðan 82-55. Það var fyrst í fjórða leikhluta sem nokkurt jafnræði var með liðunum en þann leikhluta unnu gestirnir 22-24. Leiknum lauk því með góðum sigri heimamanna sem skoruðu 104 stig en gestirnir 79.