
Varasöm skilyrði á Snæfellsjökli
Björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ hefur gefið frá sér tilkynningu vegna varasamra aðstæðna á Snæfellsjökli. Bæjarblaðið Jökull greindi frá. Þar kemur fram að ferðalög um jökulinn geta verið varsöm allan ársins hring vegna margvíslegrar hættu sem þar má finna.
„Þegar styttist í jólafrí er viðbúið að umferð vélsleða, jeppa og annarra tækja um jökulinn fari vaxandi. Lífsbjörg vill að því tilefni koma því á framfæri að vegna snjólaga geta aðstæður verið sérstaklega hættulegar núna. Hættuleg ísing er á jöklinum og á nærliggjandi svæðum, sprunguhætta er mikil og snjóbreiður hylja jökulsprungur. Björgunarsveitin hvetur fólk til að halda sig frá ferðum á jökulinn nema fyrir þá sem ætla sér gangandi og eru með viðeigandi búnað, þekkingu og reynslu af slíkum ferðum,“ segir í tilkynningu.
Bent er á að önnur nærliggjandi svæði líkt og í kringum Geldingafell og Sandsúlur gætu verið fær á tækjum en vegna ísingar þarf að fara sérstaklega varlega. Á næstu vikum og mánuðum munu aðstæður væntanlega batna þegar snjóað hefur meira en bent er á að ferðalög um jökulinn eru ávallt varasöm þó að hættan minnki þegar nær dregur vori.