Fréttir
Vesturgata 57 á Akranesi. Ljósm. Hákot

Þekkt hús til sölu á Akranesi

Á dögunum var Vesturgata 57 á Akranesi auglýst til sölu. Nú ganga hús á Akranesi kaupum og sölum á hverjum degi án þess að það rati í fjölmiðla. En Vesturgata 57 er ekkert venjulegt hús ekki síst vegna stærðarinnar og miklu heldur vegna þess að þar hefur verið rekin rakarastofa samfellt frá árinu 1937 eða í um 88 ár. Þrátt yfir öll þessi ár hafa þó aðeins fjórir rakarar rekið þar stofu og ráðið þar skærum. Fyrstur var þar Árni B. Sigurðsson og síðar Geirlaugur sonur hans til ársins 1965 er Hinrik Haraldsson keypti aðstöðuna og hefur rekið þar stofu síðan, en síðari árin hefur Haraldur sonur hans staðið vaktina að mestu. Munu fá eða engin dæmi um rakarastofu sem rekin hefur verið jafnlengi á sama stað hér á landi.