
Stjórnarmenn Orkuveitunnar vilja fara yfir tryggingamál fyrirtækisins
Misjafnt hagsmunamat orkufyrirtækjanna sem selja raforku til stórnotenda gagnvart mögulegu greiðslufalli viðskiptavina hefur vakið athygli í kjölfar frétta Skessuhorns á dögunum. Þar kemur fram að Landsvirkjun er með tryggingu gagnvart hugsanlegu tjóni í kjölfar tilkynningar Norðuráls um greiðslufall vegna bilunar í rafbúnaði fyrirtækisins. Orkuveita Reykjavíkur hefur metið það svo að kaupskylda/greiðsluskylda Norðuráls í raforkusamningum sé svo skýr að ekki þurfi slíka tryggingu. Upplýsingafulltrúi HS Orku vildi ekki svara því hvort fyrirtækið er með slíka tryggingu en samkvæmt heimildum sem Skessuhorn metur áreiðanlegar er fyrirtækið með slíka tryggingu. Í þessu máli verður tekist á um hvort ákvæði raforkusamninganna um „force majeure“ eigi við þegar um bilun sé að ræða.