Fréttir

Bókakynning í Snorrastofu á fimmtudagskvöld

Fimmtudagskvöldið 4. desember kl. 20:00 verður bæði boðið upp á Prjóna-bóka-kaffi og bókakynningu í Snorrastofu í Reykholti. Þar munu þrír rithöfundar lesa úr verkum sínum, fjalla um þau og svara fyrirspurnum. Um er að ræða eftirfarandi höfunda og verk: Gunnar J. Straumland: Og óvænt munu hænur hrossum verpa,  Guðrún Guðlaugsdóttir: Dóu þá ekki blómin? og Helgi Bjarnason: Bóhem úr Bæjarsveit. Sagnaþættir úr Borgarfirði III.

Prjóna-bóka-kvöld Snorrastofu eru kvöldsamkomur með baðstofublæ undir forystu Gíslínu Jensdóttur, bókasafnsfræðings Snorrastofu. Er boðið upp á slíkar samkomur hálfsmánaðarlega á fimmtudagskvöldum yfir veturinn í bókhlöðu Snorrastofu. Þessi kvöld eru fastur punktur í tilverunni hjá mörgum, enda nýtur fólk þess að hittast í notalegu umhverfi og spjalla saman. Myndast þá skapandi samvera í andrúmslofti bókhlöðunnar þar sem margt ber á góma og list- og verkmenning flyst á milli gestanna. Fólk er hvatt til að koma með hannyrðir og sinna öðru handverki. Kvöldin hafa reynst skemmtilegur vettvangur fyrir ýmis konar frásagnir og fróðleik, sem gestir hafa miðlað, og er stundum boðið upp á upplestur, örfyrirlestra eða myndasýningar. Segja má að þarna skapist skemmtileg og gefandi baðstofustemmning.

Bókhlaðan er opin öllum til útlána þessi kvöld og fólk nýtir sér það í töluverðum mæli.

-fréttatilkynning