
Samið um fækkun flóttafólks í sveitarfélaginu
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar síðastliðinn fimmtudag var lagður fram þriðji viðauki við þjónustusamning milli félags- og húsnæðismálaráðuneytis og sveitarfélagsins um samræmda móttöku flóttafólks. Einkum er um að ræða mál sem snertir flóttafólk með búsetu á Bifröst. „Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja III. viðauka við þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks sem felur í sér lækkun á heildarfjölda samnings úr 180 einstaklingum í 140. Með þessari breytingu er dregið úr líkum á fjölgun flóttafólks umfram getu sveitarfélagsins og tryggt að eins miklu leyti og hægt er að fjármagn fylgi þeim sem kunna að flytjast á eigin vegum í sveitarfélagið,“ segir í bókun byggðarráðs sem samþykkt var samhljóða.