
Ævar Þór með fjórar bækur fyrir þessi jól
Borgfirðingurinn Ævar Þór Benediktsson rithöfundur gefur út fjórar bækur fyrir þessi jól; Skólastjórann, Þína eigin sögu; Piparkökuborgina, Þína eigin sögu; Gleðileg jól og myndabókina Einn góðan veðurdag. Sú síðastnefnda gerist einmitt í Borgarfirði og er fyrir allra yngstu lesendurna, með myndum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. „Bókin er byggð á fjölskyldunni minni og fjallar um strákinn Hjört sem er að fara í sveitina til ömmu og afa. Glöggir lesendur munu þekkja Siggu Ævars og Benna Líndal á Gufuá sem ömmuna og afann, enda persónurnar byggðar á þeim. Þetta er fullkomin bók fyrir þá sem eru að byrja að læra að lesa eða hreinlega þá sem eru að byrja að læra að hlusta á sögur. Örfáar setningar á hverri síðu í bland við fallegar myndir Lóu Hlínar. Svo er smá aukafróðleikur aftast um hitt og þetta tengt sögunni,“ segir Ævar Þór í samtali við Skessuhorn.