
Útvarp Akranes 95,0 í loftinu um helgina
Útvarp Akraness, sem rekið er er af Sundfélagi Akraness, fór í loftið stundvíslega klukkan 13 í dag. Sem kunnugt er hefur Sundfélagið rekið útvarpsstöðina fyrstu helgi aðventu um áratuga skeið. Að þessu sinni er útvarpsstöðin til húsa í Brekkubæjarskóla enda hefur fyrra húsnæði stöðvarinnar í gamla Landsbankahúsinu verið breytt í lögreglustöð í öðrum ljósvaka ef svo má segja.
Þegar blaðamaður Skessuhorns kíkti við á útvarpsstöðinni skömmu fyrir fyrstu útsendingu mátti greina mikla spennu í loftinu og næsta víst að forráðamenn stöðvarinnar glímdu við snert af sviðsskrekk. Við lokafrágang voru þrautreyndir ljósvíkingar þau Hjórdís Hjartardóttir, Guðrún Guðbjarnadóttir, Guðmundur Bynjar Júlíusson og Hjörvar Gunnarsson.
Þrátt fyrir að rekstur stöðvarinnar sé orðinn mjög mótaður eru þó ávallt einhverjar breytingar á hverju ári, ekki síst í dreifikerfinu. Nú verður stöðin meðal annars aðgengileg á appinu Spilaranum og á Spotify má nú finna hluta af útsendingum stöðvarinnar í gegnum árin.
Auglýsingasala hefur gengið venju fremur mjög vel að þessu sinni sem er vel því þar liggur hjartað í framtakinu. Að styrkja viðamikið æskulýðsstarf Sundfélags Akraness. Jólakveðjur stöðvarinnar taka nú þeim breytingu að einstaklingar geta sent jólakveðjur og hafa undirtektir einstaklinga verið mjög góðar.
Eins og áður sagði hófst útsending kl. 13 í dag og verður útvarpað þar til síðdegis á sunnudaginn.