Fréttir

Árlegir jólatónleikar framundan í Borgarnesi

Hinir árlegu jólatónleikar Hljómlistarfélags Borgarfjarðar verða haldnir í níunda sinn sunnudaginn 7. desember nk. í Hjálmakletti í Borgarnesi. Sem fyrr er það Þóra Sif Svansdóttir sem skipuleggur tónleikana. Hún segir að tvennir tónleikar verði í boði að þessu sinni; síðdegistónleikar kl. 17 og kvöldtónleikar sem hefjast klukkan 20.

Á tónleikunum mun hljómsveit leika og syngja ásamt góðum gestum. Aðalgestur er enginn annar en Páll Óskar Hjálmtýsson. Aðrir söngvarar verða: Þóra Sif Svansdóttir, Eiríkur Jónsson og Englabossarnir, Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, Heiðmar Eyjólfsson og Guðrún Katrín Sveinsdóttir. Þá mun barnakór koma fram.

Hljómsveitina skipa þeir Gunnar Reynir Þorsteinsson, Friðrik Sturluson, Pétur Valgarð Pétursson og Birgir Þórisson. Hljóðmaður verður Baldvin A B Aalen.

Miðasala fer fram í versluninni Brúartorgi í Borgarnesi og er miðaverð: 5.500 kr.