
Miðflokkurinn stefnir á framboð í vor
Þingmenn Miðflokksins hafa að undanförnu verið á ferð um landið, stappað stálinu í félagsmenn sína og stofnað nýjar deildir. Nýverið fór fram auka aðalfundur Miðflokksdeildar á Akranesi og stofnfundur var haldinn í Borgarbyggð síðastliðinn laugardag. Ingibjörg Davíðsdóttir þingmaður flokksins í kjördæminu segir í samtali við Skessuhorn að með þessu sé verið að undirbúa væntanleg framboð í sveitarstjórnarkosningunum 16. maí. Flokkurinn bauð í síðustu kosningum ekki fram í sveitarfélögum í landshlutanum. Ingibjörg áréttar að það verði í höndum félaganna á hverjum stað að taka formlega ákvörðun um framboð, en telur líklegt að hér í Norðvesturkjördæmi verði a.m.k. boðið fram á Akranesi og í Borgarbyggð. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er líklegt að svo verði einnig a.m.k. í Skagafirði og á Ísafirði.