
Íbúðir í Húsi kynslóðanna fara í sölu á morgun
Eins og sjá má í auglýsingu frá Nes fasteignasölu í síðasta Skessuhorni stendur til að á morgun, þriðjudaginn 25. nóvember klukkan 14:00, verði hægt að gera tilboð í kaup á íbúðum í Húsi kynslóðanna við Borgarbraut 63 í Borgarnesi. Á neðstu hæð hússins verða nemendagarðar fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar en á efri þremur hæðum verða alls 12 íbúðir fyrir 55 ára og eldri boðnar til sölu. Húsið er enn í byggingu, verður fjögurra hæða lyftuhús með bílakjallara og sér geymsla í kjallara.
Fjórar íbúðir eru á hverri hæð og verða þær allar afhentar fullbúnar. Tvær stærðir eru af íbúðum, þ.e. 98,3 fm og 68,3 fm. Söluverð fyrir fermetrann er rúm ein milljón króna, því ásett verð er 98,5 milljónir fyrir stærri íbúðirnar en 69,5 milljónir fyrir þær minni.