
Grundaskólanemar söfnuðu rúmri milljón fyrir Malaví
Nýverið héldu nemendur og skólasamfélag Grundaskóla á Akranesi árlegan góðgerðadag þar sem haldinn var markaður til stuðnings hjálparstarfs RKÍ í Malaví. Dagurinn er undir heitinu „Breytum krónum í gull.“ Búið er að leggja inn á RKÍ afrakstur góðgerðardagsins en alls söfnuðust 1.029.939 krónur. Frá upphafi hefur skólinn styrkt hjálparstarf RKÍ í Malaví um rétt tæpar tíu milljónir króna, en sú upphæð er ekki framreiknuð miðað við verðlagsbreytingar.