
Göngufólki bjargað úr sjálfheldu á tveimur stöðum í gær
Síðdegis í gær bárust björgunarsveitum á Vesturlandi útköll vegna fólks sem hafði lagt í fjallgöngur og lent í vandræðum á tveimur fjöllum á svipuðum tíma. Rétt um þrjúleytið voru björgunarsveitir í Borgarfirði og Akranesi kallaðar út vegna tveggja göngumanna sem lagt höfðu á Skessuhorn. Um þrjátíu mínútum síðar voru svo björgunarsveitir af Snæfellsnesi kallaðar út vegna göngumanns sem lagt hafði á Eyrarhyrnu, sem er milli Grundarfjarðar og Kolgrafafjarðar.

Í Eyrarhyrnu hafði göngumaðurinn runnið aðeins niður hlíðina vegna ísingar og treysti sér ekki til að finna góða leið, hvorki upp né niður. Björgunarsveitarfólk bjó sig til fjallabjörgunar og fyrstu björgunarmenn voru komnir upp fjallið að göngumanninum um klukkan 16:30. Tryggingar voru settar upp og viðkomandi í sigbelti til tryggingar. Þá voru fleiri björgunarmenn komnir á staðinn og öruggt að hefja niðurferð. Hópurinn hélt svo niður rétt fyrir klukkan 18, örugga leið og voru komnir um hálftíma síðar niður í bíla björgunarsveita.
Verkefnið í Skessuhorni var aðeins flóknara í framkvæmd en þar sýndu drónar einnig mátt sinn og megin, þegar þeir voru notaðir til að lýsa upp fjallshlíðina eftir að myrkur skall á. Þar höfðu tveir göngumenn lagt á fjallið og lent í aðstæðum sem voru þeim erfiðar vegna mikils bratta og klaka í hlíðinni en þeir voru á hefðbundinni niðurleið í vestanverðu fjallinu. Björgunarsveitir frá Akranesi og úr Borgarfirði fóru til aðstoðar og notuðu meðal annars buggy bíl, mikið breyttan fjallabíl og snjóbíl til að komast nær fjallinu með mannskap og búnað.
Eitt af því fyrsta sem var gert var að setja dróna í loftið og finna fólkið sem gekk vel og staðsetning þess því vituð í upphafi aðgerða. Gönguhópur gerði sig kláran til uppgöngu og hélt á fjallið með línur og aðrar tryggingar. Eftir ríflega hálftíma uppgöngu var hópurinn kominn til göngumanna þegar klukkan var langt gengin í sex síðdegis og myrkur skollið á. Myrkrið kom ekki mikið að sök því dróni með öflugt ljós var nú í loftinu yfir hópnum og lýsti upp hlíðina. Göngumönnunum var orðið kalt, einkum á fótum, og fyrsta verk björgunarsveitarfólks var því að koma orku og hita í þá áður en haldið væri niður.
Rétt fyrir klukkan sjö um kvöldið var svo haldið af stað niður og rúmum klukkutíma síðar var hópurinn kominn að þeim tækjum sem næst komust, snjóbíl og mikið breyttum björgunarsveitarbíl, sem svo fluttu alla niður á veg þaðan sem göngumennirnir héldu heim á leið á eigin bíl og björgunarsveitir til bækistöðva. Aðgerðum í fjallinu var því lokið um hálftíu í gærkvöldi.

