
Rafrænt klippikort í smíðum á Akranesi fyrir ferðir á gámastöðina
Á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar í byrjun þessa mánaðar var samþykkt framlag upp á rúmar 1,7 milljón króna til forritunar á svokölluðu Akranesappi og tenginga þess við gagnagrunn kaupstaðarins. Um er að ræða rafrænt klippikort sem hægt verður að nota á móttökustöð Gámu. Líf Lárusdóttir, formaður bæjarráðs, fylgir þessari ákvörðun eftir með pistli á FB síðu sinni. „Án frekari kynningar á þessum stigum um sjálft appið þá langar mig að tala um klippikortin og hvers vegna þau koma til aftur. Það er nú einu sinni þannig að í okkar störfum sem bæjarfulltrúar erum við að fást við alls konar og taka alls konar ákvarðanir. Fjárhags- og fjárfestingaáætlunin í fyrra var engin undantekning á því en þar var kynnt ákveðin breyting á gjaldskrá á gámasvæði og klippikortin tekin úr umferð. Ákveðin upphæð var við þetta tekin út úr sorphirðugjaldinu eftir hugmyndafræðinni „Þau borga sem henda.“ Við lögðum af stað og mjög fljótlega kom í ljós að breytingin olli mikilli óánægju á meðal bæjarbúa. En þá voru góð ráð dýr því þarna vorum við búin að gera breytingu og heilt ár undir. Óánægjan jókst og við vorum reglulega að kalla eftir gögnum um hversu mikið íbúar væru að greiða fyrir sinn úrgang í Gámu,“ skrifar Líf.