
Eldvarnaátaki á landsvísu var ýtt úr vör í Heiðarskóla – myndasyrpa
Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófst formlega í morgun. Að þessu sinni var ákveðið að hefja það í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit. Fyrst ræddi Bjarni Ingimarsson, formaður LSS, við börn í þriðja bekk um mikilvægi eldvarna. Þá las Bjarni Fritzson rithöfundur upp úr nýrri bók um Orra óstöðvandi og Möggu Messí. Þau lenda í ýmsum ævintýrum sem snúa að eldvörnum. Eftir það fór fram rýmingar- og björgunaræfing í skólanum. Að endingu fengu starfsmenn, nemendur og aðrið gestir þjálfun í notkun slökkvibúnaðar hjá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðrsveitar sem mætt var á svæðið. Börnin fengu að skoða slökkviliðsbíl og fengu að æfa sig í að slökkva eld í pönnu. Ekki hvað síst vakti athygli þeirra að fá að skoða sjúkrabíl og var boðið upp á súrefnismettunarmælingu um borð í honum. Það er árvisst að slökkviliðsmenn um land allt hefji þetta átak í aðdraganda aðventu og er valinn einn skóli til að hefja það með formlegum hætti.