
Lionsmenn undirbúa að setja upp ljós í kirkjugarðinum
Að venju verður Lionsklúbbur Akraness með útleigu á ljósakrossum í kirkjugarðinum í Görðum nú í byrjun aðventunnar. Þetta verkefni og stuðningur almennings við það hefur gert Lionsmönnum kleift að styðja við bakið á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og fleiri verkefni. Að þessu ári gaf klúbbúrinn til dæmis HVE vaktara með hjartalínuriti og súrefnismettunarmæli ætlað til notkunar á slysadeild. Einnig blöðruskanna og tvö sjúkrarúm fyrir kvennadeild. Þá færði klúbburinn einnig hjúkrunarheimilinu Höfða Essenza veltirúm ásamt dýnu og gálga. Andvirði þessara gjafa er á sjöundu milljón króna. Auk þess styrkti klúbburinn Mæðrastyrksnefnd Akraness og Alþjóðahjálparsjóð Lions. „Um leið og við Lionsmenn þökkum kærlega fyrir frábæran stuðning undanfarin ár vonumst við til þess að sá stuðningur haldi áfram,“ segir í tilkynningu.
Afgreiðslutímar ljósakrossa í kirkjugarðinum að þessu sinni verða laugardaginn 29. nóvember frá kl. 11.00. – 15.30., sunnudaginn 30. nóvember frá kl. 13.00. – 15.30. og laugardaginn 6. desember frá kl. 13.00. – 15.30. Verðið er það sama og á síðasta ári eða kr. 9.000.
Nánari upplýsingar veita Valdimar Þorvaldsson í síma 899-9755 eða netfang valdith@aknet.is og Ólafur Grétar Ólafsson í síma 844-2362 eða netfang oligretar@aknet.is
„Þeir sem óska eftir ljósi á leiði í Innra-Hólmskirkjugarði, vinsamlegast hafið samband við Gunnar Hafsteinsson í síma 898-4644,“ segir í tilkynningu frá Lionsklúbbi Akraness.