Fréttir

Leitað varanlegrar lausnar vegna flóttafólks á Bifröst

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra segir að unnið sé markvisst með Borgarbyggð að finna varanlega lausn vegna búsetu flóttafólks á Bifröst og hugsanlega þátttöku þess á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í svari ráðherra á Alþingi við fyrirspurn Ingibjargar Davíðsdóttur þingmanns Miðflokksins. Líkt og kom fram í frétt Skessuhorns í síðasta mánuði óskaði Ingibjörg svara ráðherra við því hvort ráðherra hafi í hyggju að beita sér fyrir breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að ríkissjóði verði heimilt að endurgreiða sveitarfélögum fjárhagsaðstoð við erlenda ríkisborgara sem átt hafa lögheimili á Íslandi lengur en tvö ár. Þá óskaði þingmaðurinn einnig eftir svari við því hvort ráðherra hyggist bregðast við ákalli Borgarbyggðar um að mæta kostnaði við fjölda flóttamanna sem búa á Bifröst og hafa búið þar lengur en tvö ár.