
Þriggja ára verndartollar ESB á Ísland og Noreg
Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu í morgun tillögu um þriggja ára verndartolla á innflutt járnblendi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Bæði íslensk og norsk stjórnvöld lögðu fast að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að veita undanþágu þar sem þau eru í nánum tengslum í gegnum EES-samninginn. Verndartollunum er lýst sem „mikilvægu skrefi“ til að vernda evrópskan járnblendiiðnað, segir í tilkynningu Evrópusambandsins. Tollarnir eiga eins og áður sagði að gilda í þrjú ár og eiga að draga úr innflutningi á járnblendi um fjórðung borið saman við meðaltal áranna 2022-2024.
Þetta mun vera í fyrsta skipti síðan 2002 sem ESB innleiðir verndartolla sem einnig hafa áhrif á EES ríkin Noreg og Ísland, en það ár var tekin upp stálgjaldskrá. Að þessu sinni ná verndartollarnir til járnblendis sem er mikilvægt hráefni til stálframleiðslu.