Fréttir
Svipmynd frá Búðardal. Ljósm. sm

Lítilsháttar hagnaður áætlaður í Dalabyggð

Fjárhagsáætlun A og B hluta Dalabyggðar fyrir árið 2026 gerir ráð fyrir að rekstrarafkoma ársins verði jákvæð um 8,5 milljónir króna sem er um 0,7% af tekjum. Fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram í sveitarstjórn í síðustu viku. Tekjur Dalabyggðar á næsta ári eru áætlaðar 1.232 milljónir króna. Þar af vega þyngst útsvar og fasteignaskattar að fjárhæð 648 milljónir króna, framlag Jöfnunarsjóðs er áætlað 443 milljónir króna og aðrar tekjur eru áætlaðar um 141 milljón króna. Laun og launatengd gjöld eru stærsti einstaki kostnaðarliðurinn að fjárhæð 659 milljónir króna, annar rekstrarkostnaður er áætlaður 394 milljónir króna og hækkun lífeyrisskuldbindingar er áætluð 14 milljónir króna. Afskriftir eru áætlaðar 76 milljónir króna og fjármagnskostnaður um 80 milljónir króna.