Fréttir

Árlegt Jólabingó Kvenfélagsins 19. júní er framundan

Hið sívinsæla jólabingó Kvenfélagsins 19. júní í Borgarfirði fer fram í sal LbhÍ á Hvanneyri fimmtudaginn 20. nóvember klukkan 19:30. Þessi viðburður hefur nú verið haldinn nánast árlega í rúm 50 ár og alltaf notið mikilla vinsælda. Kvenfélagið 19. júní er nú fjölmennasta kvenfélag í Borgarfirði en í því eru um 50 konur á öllum aldri og hefur starfsemin verið öflug síðustu árin.

„Í ár verður bingóið afar glæsilegt að venju en fjölmargir góðir vinningar hafa borist kvenfélagskonum og vilja þær færa öllum sem hönd hafa lagt á plóg kærar þakkir fyrir. Meðal vinninga verða t.d. hótelgistingar, gjafabréf á ýmsa afþreyingu, vöruúttektir, leikföng, bækur, jólavörur og ýmislegt fleira,“ segir í tilkynningu.

Allur ágóði af sölu bingóspjalda mun renna til góðgerðar- og/eða líknarmála innan héraðs. Ágóði undanfarinna bingóa hefur m.a. runnið til kaupa á endurhæfingatækjum fyrir hjúkrunar- og dvalarheimilið Brákarhlíð í Borgarnesi og sjúkraþjálfunarmiðstöð Halldóru í Borgarnesi. Einnig hefur verið fjárfest í sjúkrarúmum fyrir HVE fyrir ágóða fyrri ára, Ungmennafélagið Íslendingur hlaut styrki vegna endurbóta á Hreppslaug og Björgunarsveitin Ok fékk blautgalla sem nýtast við björgun í ám og vötnum, svo fátt eitt sé talið af því sem styrkt hefur verið síðustu ár.

Í hléi á fimmtudaginn verður hægt að kaupa veitingar og verður posi á staðnum. „Kvenfélagskonur hvetja lesendur til að fjölmenna á viðburðinn og styðja þannig við mikilvægt góðgerðarstarf í Borgarbyggð.“