
Afkoma Akraneskaupstaðar gerir ráð fyrir lítilsháttar hagnaði
Fjárhagsáætlun A og B hluta Akraneskaupstaðar fyrir árið 2026 gerir ráð fyrir að rekstrarafkoma ársins verði jákvæð um tæpar 196,7 milljónir króna sem er tæplega 1,3% af tekjum. Þetta kom fram á fundi bæjarstjórnar á dögunum þegar fram fór fyrri umræða um fjárhagsáætlunina. Gert er ráð fyrir að tekjur bæjarfélagsins og stofnana þess verði tæplega 15,1 milljarður króna. Þar vega þyngst útsvar og fasteignaskattar að fjárhæð tæpir 8,6 milljarðar króna, framlag Jöfnunarsjóðs er áætlað tæpir 2,8 milljarðar króna og aðrar tekjur rúmir 3,7 milljarðar króna. Meðal annarra tekna í fjárhagsáætlun er áætlaður arður frá Orkuveitu Reykjavíkur að fjárhæð tæpar 360 milljónir króna og arður frá Faxaflóahöfnum að fjárhæð 64 milljónir króna.