
Afgangur verður af rekstri Borgarbyggðar
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Borgarbyggðar fyrir árið 2026 var lögð fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar sl. fimmtudag og samþykkt til síðari umræðu. Fram kemur að gert er ráð fyrir 234 milljóna króna rekstrarafgangi af A-hluta og 178 milljóna króna afgangi af rekstri samstæðu. Tekjur ársins 2026 í A-hluta eru áætlaðar 7.441 m.kr. sem er hækkun um 9,9% milli ára miðað við útkomuspá 2025. Áætlað er að skatttekjur án framlags frá Jöfnunarsjóði verði 4.430 m.kr. Miðað er við að útsvarsprósenta verði áfram 14,97% og álagningarhlutfall fasteignaskatts verði óbreytt milli ára. Sveitarstjórn áætlar að framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði 2.050 m.kr. og að aðrar rekstrartekjur verði 961 m.kr. Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) er áætlaður 616 m.kr. árið 2026 sem samsvarar 8,3% af rekstrartekjum. Í sjóðstreymi er veltufé frá rekstri áætlað 727 m.kr. sem samsvarar 9,8% framlegð.