
Á meðfylgjandi mynd úr skýrslu Landsnets má sjá hvernig Holtavörðuheiðarlína 1 fellur að landslaginu. Myndin er tekin á útskoti við Hringveginn í Norðurárdal, sem er áningarstaður við Kattarhrygg. Horft til norðausturs. Þarna er hálfur km í línuna.
Ráðuneytið samþykkir að raflínunefnd verði skipuð um Holtavörðulínu 1
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur orðið við beiðni Landsnets um að skipuð verði sérstök raflínunefnd vegna Holtavörðuheiðarlínu 1. Þar með er verið að leggja til að skipulagsvald vegna framkvæmdarinnar verði fært frá sveitarfélögunum sem hlut eiga að línustæðinu og til sérstakrar raflínunefndar. Í úrskurði sínum 13. nóvember sl. vísar ráðuneytið til beiðni Landsnets, sem send var 27. júní síðastliðinn, þar sem óskað var eftir því að ráðherra skipi sérstaka raflínunefnd til að undirbúa, kynna og afgreiða raflínuskipulag vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku sem ná til tveggja eða fleiri sveitarfélaga auk þess sem nefndin afgreiði umsóknir um framkvæmdaleyfi vegna þeirra.