Fréttir
Viðbragðsaðilar í Borgarbyggð komu saman við Bauluna í Stafholtstungum kl. 18 og óku sem leið lá þaðan að Stafholtskirkju. Í kirkjunni var haldin minningarstund um þá sem látist hafa í umferðarslysum. Ljósm. Valur Snær Tryggvason

Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa var í gær

Í gær var Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Sameinuðu þjóðirnar hafa nú í nokkur ár tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um þá sem látist hafa í umferðarslysum. Minningarathafnir voru haldnar á þrettán stöðum vítt og breitt um landið, meðal annars á Akranesi og í Borgarfirði. Dagurinn er skipulagður í samvinnu björgunarsveita, lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs, eða þeirra viðbragðsaðila sem koma að vettvangi alvarlegra slysa.

Við þetta tækifæri er minnst þeirra sem látist hafa í umferðinni. Fólk er hvatt til að leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á notkun öryggisbelta. Kannanir hafa sýnt að alltof hátt hlutfall fólks í bílum spennir ekki beltin. Er það algengast í hópi yngstu ökumanna og farþega þeirra. Góð regla er að ökumaður hefji aldrei ferð fyrr en allir sem í bílnum eru hafi spennt bílbelti.

Viðbragðaðilar á Akranesi koma saman við slökkvistöðina við Kalmansvelli klukkan 14. Eftir það var ekið á hægri ferð um bæinn en með bláu ljósin kveikt. Ljósm. mm