
Engin ný forgangsröðun ljós þrátt fyrir útboð hönnunar Fljótaganga
Mikla athygli vakti á föstudaginn þegar Vegagerðin tilkynnti á vef sínum útboð á for- og verkhönnun Fljótaganga, vegagerðar á Siglufjarðarvegi milli Stafár í Fljótum og tengingu við núverandi Siglufjarðarveg í botni Siglufjarðar. Um er að ræða 24 kílómetra vegagerð og 5,3 kílómetra löng jarðgöng. Í ljósi þess að innviðaráðherra vinnur nú að nýrri Samgönguáætlun og hefur lýst því yfir að hann sé óbundinn af þeirri síðustu, þar sem Fjarðarheiðargöng voru í forgangi, slógu margir áhugamenn um samgöngumál því föstu að áðurnefnt útboð Vegagerðarinnar væri merki um að innviðaráðherra hefði ákveðið að setja Fljótagöng í forgang. Þá á kostnað annarra jarðgangakosta sem ræddir hafa verið á undanförnum árum svo sem tvöföldun Hvalfjarðarganga og jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.