
Borgarbyggð og Dalabyggð greiða mest í helmingamokstur
Sveitarfélög greiddu rúmar 123 milljónir króna í helmingamokstur á landinu öllu á síðasta ári. Þetta kemur fram í svari innviðaráðherra við fyrirspurn Ingvars Þóroddssonar þingmanns Viðreisnar um helmingamokstur á árunum 2022-2024. Vegagerðin hefur skilgreint þá vegi þar sem heimilt er að beita helmingamokstureglu. Þessa vegi er heimilt að moka með þátttöku Vegagerðarinnar þrisvar í viku meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Vegagerðin greiðir þá helming kostnaðar þegar beðið hefur verið um moksturinn og greiðsla mótaðila hefur verið tryggð enda komi moksturinn fleiri vegfarendum til góða en þeim sem um hann biður. Óskir sveitarfélaga um slíkan mokstur skulu að jafnaði ganga fyrir óskum einstaklinga.