Fréttir
Sigurvegarar á mótinu; frá vinstri eru þeir Gunnlaugur og Vignir í öðru sæti, þá Aðalsteinn og Svala með veglegan farandbikar og loks þau Svanhildur og Sigurður í þriðja sæti. Ljósm. se

Fádæma yfirburðir sigurvegara á Þorsteinsmóti

Í gær fór árlegt Þorsteinsmót í bridds fram í Logalandi í Borgarfirði. Mótið er haldið til minningar um Þorstein Pétursson kennara og briddsspilara frá Hömrum í Reykholtsdal sem um árabil beitti sér fyrir framgangi briddsíþróttarinnar í héraði. Þorsteinsmót er að venju stærsta briddsmót í landshlutanum og mögulega einnig á landsbyggðinni. Þátttaka á mótinu var góð, en 49 pör tóku þátt og spiluð voru 44 spil, ellefu umferðir. Flestir komu spilarar af höfuðborgarsvæðinu en heimafólk gerði sitt til að blanda sér í baráttuna. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, en einnig nokkur útdráttarverðlaun sem styrktaraðilar mótsins lögðu til.